Forseti flytur ávarp á setningarathöfn ráðstefnunnar Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle. Ráðstefnan er stærsti alþjóðlegi umræðuvettvangur um norðurslóðamál í heiminum.
Í ávarpi sínu fagnaði forseti þeim vettvangi sem Hringborð norðurslóða skapar til að ræða málefni norðurslóða, ekki síst eftir að innrás Rússa í Úkraínu dró úr samstarfsmöguleikum í Norðurskautsráðinu. Forseti lagði áherslu á mikilvægi þess að taka höndum saman þvert á landamæri til að glíma við þær fjölmörgu áskoranir sem heimsbyggðin stendur nú andspænis, ekki síst vegna loftslagsbreytinga.
„Á tímum sem þessum verðum við öll, bæði einstaklingar, stofnanir, stjórnvöld og landssvæði, að spyrja okkur hvað við getum gert til að stuðla að betri heimi. Ég hef mikinn metnað fyrir Íslands hönd og trúi því að hlutverk okkar sé að vera land tækifæranna, með því að virkja sköpunarkraft okkar í listum, vísindum og iðnaði til að stuðla að lausn stórra vandamála á heimsvísu. Ég vona að þið nýtið tíma ykkar hér vel og finnið tækifæri til að taka höndum saman við okkur. Það er löngu orðið tímabært að við vinnum saman og við verðum að sýna í verki hverju samvinnan getur skilað okkur."
Ávarp forseta (á ensku) má lesa í heilu lagi hér.
At a time like this, every individual, organization, country and region must ask what role they might play in catalyzing a better-working world. I have high ambition for Iceland’s role in the world and see it as our purpose to be a „land of solutions“ – to unlock our creativity from art to science to industry to solve the world’s biggest challenges. I hope you’ll use your time here to seek opportunities to join us and others in that ambition. The time has come where good people working together, can – and indeed must – show the world what is possible.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og forsvarsmaður Hringborðsins, setti þingið formlega í Hörpu í Reykjavík en meðal annarra ræðumanna voru Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Liu Zhenmin, sérstakur erindreki Kína í loftslagsmálum, Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður fyrir Alaska í Bandaríkjunum, Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, Anna Maria Bernini, ráðherra háskólamála á Ítalíu og Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóri UNESCO. Þá sendi Emmanuel Macron Frakklandsforseti myndbandskveðju til Hringborðsins.