Forseti tekur á móti fulltrúum Trans vina, hagsmunasamtaka trans barna og unglinga, á alþjóðlegum minningardegi trans fólks, 20. nóvember. Dagurinn er ætlaður til þess að minnast trans fólks sem hefur verið myrt eða fallið fyrir eigin hendi vegna fordóma.
Fulltrúar Trans vina ræddu við forseta um stöðu og líðan trans barna og unglinga á Íslandi. Um leið færði félagið forseta bolla með áletruninni „Þú átt skjól hjá mér,“ sem þakklætisvott vegna ávarps forseta á Hinsegin dögum í Reykjavík 2024. Þar sagði hún það meðal annars vera hlutverk forseta að tala máli minnihlutahópa sem neyddir eru til að berjast fyrir sínum sjálfsagða tilverurétti og vék sérstaklega að trans fólki í því samhengi.
„Ég mun standa við bakið á öllu hinsegin fólki og ég vil sérstaklega taka utan um hóp trans fólks í þessu samhengi,“ sagði í ávarpi forseta á Hinsegin dögum 2024, sem lesa má í fullri lengd hér.