• Forseti ásamt Sigríði Gísladóttur, framkvæmdastjóra Okkar heims, og Þórunni Eddu Sigurjónsdóttur félagsráðgjafa. 
  • Eva Þengilsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindahússins, tekur á móti forseta ásamt Sigríði Gísladóttur, framkvæmdastjóra Okkar heims, og Þórunni Eddu Sigurjónsdóttur félagsráðgjafa. 
Fréttir | 26. nóv. 2024

Okkar heimur

Forseti heimsækir samtökin Okkar heim, stuðningsúrræði fyrir börn sem eiga foreldri með geðrænan vanda. Okkar heimur hófst sem verkefni innan Geðhjálpar árið 2019 en hefur síðan stækkað og orðið að sjálfstæðu úrræði sem styrkt er af mennta- og barnamálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu og velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Starfsemin er til húsa í Mannréttindahúsinu við Sigtún í Reykjavík.

Eva Þengilsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindahússins, tók á móti forseta og sagði frá starfsemi hússins, en þar sameinast fjölbreytt félagasamtök um að berjast fyrir mannréttindum, hvert á sínum forsendum. Að því loknu átti forseti fund með frumkvöðlum Okkar heims, þeim Sigríði Gísladóttur framkvæmdastjóra og Þórunni Eddu Sigurjónsdóttur félagsráðgjafa. 

Okkar heimur býður upp á fjölskyldusmiðjur fyrir fjölskyldur þar sem foreldri glímir við geðræn veikindi. Samtökin framleiða og þýða fræðsluefni fyrir börn og foreldra í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, vinna að verkefnum innan grunnskóla og starfa með geðþjónustu Landspítalans að því að veita starfsfólki stuðning og fræðslu auk þess að hitta foreldra sem leggjast þar inn og er nú starfrækt fjöskyldusmiðja sérstaklega fyrir þann hóp. Þá vinna samtökin að vitundarvakningu innan stofnana og í samfélaginu um mikilvægi þess að grípa börn sem eiga foreldri með geðrænan vanda og veita þeim viðeigandi stuðning.

Forseti fræddist um starfsemi samtakanna og ræddi við starfskonur þeirra um frekari leiðir til að tryggja að þjónustan sé aðgengileg og mæti vaxandi þörf í samfélaginu. 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar