Björn Skúlason, eiginmaður forseta tekur á móti Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra og Hermanni Jónassyni, forstjóra Húsnæðis og mannvirkjastofnunar (HMS), auk slökkviliðsmanna frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Tilefnið er dagur reykskynjarans þann 1. desember og forvarnarátak sem stofnanirnar taka árlega höndum saman um í tengslum við daginn.
Slökkviliðið og HMS komu færandi hendi með reykskynjara að gjöf til forsetahjóna, auk þess sem slökkviliðsmenn ræddu við Björn um mikilvægi eldvarna á heimilum landsins, þar á meðal á Bessastöðum.
Markmiðið átaksins er að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að hafa virkt eftirlit á heimilum sínum. Reykskynjarinn er eitt mikilvægasta öryggistæki heimilisins og að því tilefni eru landsmenn hvattir til að huga að virkni sinna reykskynjara.
Helstu atriði sem hafa þarf í huga:
• Reykskynjarar eru nauðsynlegir í öllum rýmum heimilisins
• Mikilvægt er að staðsetja þá sem næst miðju lofts
• Prófið virkni reykskynjarans að lágmarki einu sinni á ári
• Mikilvægt er að allir þekki flóttaleiðir á sínu heimili og að þær séu greiðfærar
• Hafið slökkvitæki tiltækt á flóttaleiðinni