Forsetahjón hefja þriggja daga ríkisheimsókn sína til Svíþjóðar á morgun, þriðjudaginn 6. maí. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra taka einnig þátt í dagskrá heimsóknarinnar ásamt opinberri sendinefnd og fulltrúum viðskipta- og menningarlífs.
Heilbrigðismál, kvikmyndagerð og öryggismál meðal efnisatriða
Það eru Karl XVI. Gústaf konungur og Silvía drottning sem bjóða til þessarar heimsóknar og er markmið hennar að styrkja hin góðu tengsl landanna og vinna að frekara samstarfi svo sem á sviði heilbrigðismála, kvikmyndagerðar og öryggismála. Samhliða ríkisheimsókninni fer viðskiptasendinefnd, leidd af Íslandsstofu, til Svíþjóðar með fulltrúum 30 íslenskra fyrirtækja með áherslu á líftækni, nýsköpun og fjárfestingar. Í tilefni heimsóknarinnar fer einnig sendinefnd á sviði sjónvarps- og kvikmyndagerðar og tekur þar þátt í dagskrá sem skipulögð er í samstarfi Swedish institute og sænska utanríkisráðuneytisins við Kvikmyndamiðstöð Íslands og Film in Iceland.
Dagskráin hefst með formlegri móttökuathöfn við Konungshöllina í Stokkhólmi en að henni lokinni á forseti fund með forseta löggjafarþingsins, Andreas Norlén, ásamt utanríkisráðherra og öðrum sendinefndarmönnum. Að loknum hádegisverði með konungshjónum eiga forseti og utanríkisráðherra sams konar fund með Ulf Kristersson forsætisráðherra og ræða þau í kjölfarið við fulltrúa fjölmiðla. Því næst skoða forseti og fylgdarlið varðbát í eigu sænsku Landhelgisgæslunnar, fræðast um starfsemi hennar og sigla um skerjagarðinn.
Á sama tíma fer Björn Skúlason með Silvíu Svídrottningu í heimsókn á Silviahemmet. Það er dagvistunarúrræði sem drottning stofnaði til fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma, en eiginmaður forseta er verndari Alzheimer-samtakanna á Íslandi. Alma Möller heilbrigðisráðherra og Anna Tenje, ráðherra öldrunarmála í Svíþjóð, verða með í för. Drottning mun einnig fylgja Birni og heilbrigðisráðherra í Barnahus, sem er barnaverndarúrræði að íslenskri fyrirmynd.
Dagskrá þriðjudagsins lýkur með hátíðarkvöldverði í Konungshöllinni.
Karolinska sjúkrahúsið og Viðskiptaháskólinn í Stokkhólmi
Á miðvikudaginn hefst dagskrá heimsóknarinnar með fundum á Karolinska háskólasjúkrahúsinu sem hefur verið öflugur samstarfsaðili íslenskra heilbrigðisstarfsmanna og veitt Íslendingum margvíslega þjónustu. Þar verður málstofa um vísindagarða á heilbrigðissviði og af því tilefni verður undirritað minnisblað um fyrirhugað samstarf Vísindagarða Reykjavíkur og Vísindagarða Stokkhólms. Forsetahjónum og heilbrigðisráðherra gefst tækifæri til að skoða bráðalækningabúnað og björgunarþyrlu á þaki sjúkrahússins sem meðal annars hefur nýst Íslendingum í sjúkraflugi. Þá verður á sjúkrahúsinu pallborðsumræða um tækninýjungar á heilbrigðissviði með þátttöku fulltrúa úr íslensku viðskiptasendinefndinni.
Næst verður haldið í Viðskiptaháskólann í Stokkhólmi þar sem forseti mun kynna sér starfsemi skólans og taka þátt í samtali um hæfni leiðtoga framtíðarinnar. Í hádeginu snæða gestirnir hádegisverð í Ráðhúsinu í boði borgarstjórnar Stokkhólmsborgar. Eftir hádegi heldur dagskráin áfram í Konunglega tækniháskólann þar sem starfsemi skólans verður kynnt og sagt frá rannsóknum á netöryggi og baráttu við tölvuþrjóta. Þá er haldið í Kvikmyndahúsið, stofnun sem átt hefur í margs konar samstarfi við Íslendinga, og verður þar málstofa um sóknarfæri á því sviði. Í lok dags bjóða forsetahjónin svo til móttöku til heiðurs sænsku konungshjónunum þar sem íslenska kokkalandsliðið reiðir fram veitingar úr íslensku úrvalshráefni.
Á lokadegi þessarar ríkisheimsóknar, sem er fimmtudagurinn 8. maí, skoðar forseti ásamt fylgdarliði Torsåker bæinn þar sem rekin er þróunarstöð fyrir matvæli framtíðar með áherslu á sjálfbærni, umhverfisvernd og lýðheilsu. Þaðan heldur hópurinn í Rosersberg-höll þar sem konungshjónin kveðja gestina og heimsókninni lýkur.