Forseti Íslands verður í opinberri heimsókn í Kína 12.–17. október 2025 í boði Xi Jingping, forseta Kína. Í för með henni eru Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, ráðherra dómsmála og jafnréttismála, Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifstofustjóri í ráðuneytinu, Sif Gunnarsdóttir forsetaritari og Þórdís Valsdóttir upplýsingafulltrúi í ráðuneytinu. Markmið ferðarinnar er að staðfesta góð tvíhliðasamskipti ríkjanna tveggja, ræða um áframhaldandi viðskipti og samskipti þjóðanna og samstarf á sviði jarðvarma, jafnréttismála og sjálfbærrar þróunar.
Mánudaginn 13. október er forseta boðið sem heiðursgesti að ávarpa 30 ára hátíðarfund kvennaráðstefnunnar í Peking sem haldinn er á vegum kínverskra stjórnvalda og UN Women.
Þriðjudaginn 14. október mun forseti eiga fund með forseta Kína. Þar gefst tækifæri til að ræða mikilvægi 30 ára hátíðarfundarins, tvíhliða samskipti ríkjanna og helstu áherslumál Íslands, m.a. á sviði loftslagsmála, mannréttinda og friðar. Jafnframt tekur forseti þátt í opinberum fundi í sendiráði Íslands í Peking. Höfuðefni fundarins er mikilvægi jarðvarma sem orkugjafa og samstarf Íslands og Kína.
Miðvikudaginn 15. október ferðast forseti til Shanghai. Þar mun hún meðal annars eiga fundi með leiðtogum borgarinnar og fulltrúum íslenskra fyrirtækja.
Fimmtudaginn 16. október ávarpar forseti ráðstefnu forystufólks í viðskiptum, stjórnmálum og alþjóðastofnunum og ræðir þar um ábyrg viðskipti og góða stjórnarhætti. Einnig heimsækir hún íslenskan kynningarbás á sýningu um grænan iðnað og sjálfbæra neyslu.
Föstudaginn 17. október tekur forseti m.a. þátt í samtali við nemendur CEIBS viðskiptaháskólans í Shanghai og heimsækir Norræna setrið við Fudan háskólann. Um kvöldið fer hún á tónleika City Chamber Orchestra of Hong Kong en á efnisskránni eru m.a. verk eftir íslensk samtímatónskáld.
Þess má geta að forseti Íslands hefur ekki sótt Kína heim frá því 2010 og forsætisráðherra Íslands ekki síðan 2013. Síðast sótti utanríkisráðherra Íslands Kína heim árið 2018.