Forseti flutti í dag nýársávarp á Bessastöðum. Ríkisútvarpið sendi ávarpið út. Texta ávarpsins má nálgast í prenthæfri gerð á vef embættisins á íslensku og á ensku og það er einnig birt hér fyrir neðan:
***
Kæru landsmenn, gleðilegt nýtt ár.
Við Björn sendum ykkur öllum hlýjar kveðjur og einlægar þakkir fyrir samfylgdina á liðnu ári. Við höfum líklega flest upplifað bæði gleði og áskoranir, stórar stundir og líka einföld augnablik sem minna okkur á hvað skiptir mestu máli í lífi okkar og samfélagi. Hugur minn er hjá ykkur sem eigið um sárt að binda. Megi kærleikurinn umvefja ykkur og styrkja.
Áramót eru táknræn tímamót. Þá leyfum við okkur að staldra við, horfa um öxl og spyrja spurninga: Hvað lærðum við? Hvað viljum við varðveita? Og hvert viljum við halda héðan? Mannkynið hefur ávallt staðið frammi fyrir breytingum og jafnan fundið leiðir til að aðlagast, læra og vaxa. Mögulega blasa nú við meiri breytingar en oftast áður og þær eru fjölbreyttar; efnahagslegar, samfélagslegar, tæknilegar og pólitískar.
Breytt staða í öryggis- og varnarmálum og áhrif stafrænnar tækni reyna á sátt og traust í samfélaginu. Fáar tækninýjungar hafa vakið jafnmikla athygli, vonir og áhyggjur og gervigreind – eða spunagreind, eins og sumir kjósa að kalla hana. Hún er orðin órjúfanlegur hluti umræðunnar um framtíð mannkyns. Þróun hennar hefur verið hröð og mótar nú upplýsingaöflun, nám, vinnu og samskipti. Hún býður upp á áður óþekkt tækifæri, meðal annars yfirsýn yfir gríðarlegt magn gagna sem getur stytt leið okkar að lausnum. En hún er vélræn – ekki skapandi með sama hætti og mannshugurinn – og hana skortir siðferðisvitund. Því verðum við að nýta hana af varfærni og með gagnrýnni hugsun, ekki í blindri trú.
Margir hafa bent á nauðsyn þess að setja spunagreindinni skýran siðferðislegan ramma, tryggja gagnsæi og stemma stigu við upplýsingaóreiðu. Stjórnvöldum ber skylda til að reyna að koma í veg fyrir misbeitingu, þar á meðal dreifingu sannfærandi falsana sem grafa undan trausti innan samfélaga og á alþjóðavettvangi. Tæknin má aldrei veikja lýðræðið eða félagsleg tengsl, heldur á hún að efla mannlega reisn, jafnrétti og aðgengi að þekkingu. Ef vel er á málum haldið getur þessi „viðbótar-greind“ orðið öflugt verkfæri sem styður við ábyrga nýsköpun og framþróun. Með skynsemi má nýta hana til að byggja betri framtíð fyrir okkur öll.
Átök eiga sér nú stað í flestum heimshlutum og sundrung ríkir innan margra samfélaga. Við Íslendingar förum ekki varhluta af óvissunni sem því fylgir. En einmitt á slíkum tímum skiptir máli að muna að við búum að sterkum stoðum.
Treystum þær enn frekar.
Við fögnuðum hálfrar aldar afmæli Kvennafrídagsins 24. október síðastliðinn. Tímamótin vöktu verðskuldaða athygli erlendis. Þjóðarleiðtogar sendu okkur hlýjar kveðjur og sögðu að margt mætti af okkur læra. Á ráðstefnu sem ég sótti í Peking, þrjátíu árum eftir að frú Vigdís Finnbogadóttir stóð í sömu sporum, fann ég að árangur Íslands í jafnréttismálum hvetur aðrar þjóðir til dáða.
Ábyrg nýting okkar á jarðvarma hefur einnig vakið athygli og orðið fyrirmynd annarra þjóða. Í áratugi hefur menntun erlendra nemenda á sviðum jarðhitanýtingar, jafnréttis, sjávarútvegs og landgræðslu verið eitt mikilvægasta framlag okkar til þróunarsamvinnu. Sú þekking hefur skilað sér. Þótt við séum fámenn getum við miðlað af myndarskap því sem við höfum lært og uppgötvað. Jafnrétti og sjálfbær nýting auðlinda eru meðal okkar styrkleika og líka lyklar að friði og lífvænleika á jörðinni.
Íslensk náttúra veitir okkur margt sem við getum verið þakklát fyrir en hún færir okkur líka áskoranir. Á liðnu ári minntumst við þess að þrjátíu ár voru liðin frá mannskæðum snjóflóðum á Vestfjörðum. Tugir einstaklinga létu þá lífið, bæði fullorðnir og börn. Skuggi þessara áfalla hvílir enn yfir byggðunum og snjóvarnargarðar minna íbúana daglega á það sem gerðist. En þessi erfiða saga er jafnframt saga af hetjudáðum, ósérhlífni og samstöðu, og hún minnir okkur á að í skugga mikilla áfalla er trúin á framtíðina okkur lífsnauðsynleg.
Enn eiga Grindvíkingar og viðbragðsaðilar í erfiðri glímu við náttúruöflin. Með gríðarlegu átaki hefur tekist að verja íbúðarhús og önnur mannvirki með varnargörðum sem ítrekað hefur þurft að styrkja. Við verðum líka að huga að því að styrkja andlega varnargarða þegar vá steðjar að og hörmungar dynja yfir. Um allt land hefur fólk sýnt Grindvíkingum stuðning í verki, opnað heimili sín og hjörtu. Samstaða í samfélaginu byggist á því að enginn þurfi að óttast um grunnþarfir sínar og tækifæri til mannsæmandi lífs. Áföll kalla á aðstoð og úrvinnslu – annars er hætt við að þau skilji eftir sig sár sem seint eða aldrei gróa.
Ég hef undanfarin misseri lagt áherslu á að börn og ungmenni þurfi sterkari skjólbelti, meðal annars gegn neikvæðum áhrifum snjalltækja og samfélagsmiðla. Aldrei áður í sögu okkar hafa ung börn mætt eins ágengum straumi utanaðkomandi áreitis og nú. Þótt samfélagsmiðlar geti verið gagnlegir eru þeir líka vettvangur óraunhæfra viðmiða og hraðrar dreifingar skaðlegs efnis. Börn búa yfir sköpunargleði, forvitni og seiglu og það er okkar hlutverk að skapa aðstæður þar sem þessir hæfileikar fá að njóta sín. Börnin sem tóku þátt í Barnaþingi færðu mér Símasáttmála. Efst á þeirra lista er ósk um að við, sem fullorðin erum, séum þeim betri fyrirmynd. Þetta eru skýr skilaboð sem við skulum taka mark á.
Staða drengja sem eiga undir högg að sækja er einnig aðkallandi viðfangsefni sem mikilvægt er að takast á við af festu og með hlýju. Of margir drengir ná ekki góðri fótfestu í skóla og glíma við félagslega einangrun, vanlíðan og fíkn. Drengir virðast síður leita sér hjálpar og síður fá þá aðstoð sem þeir þurfa. Okkar sameiginlega ábyrgð er að tryggja að öll börn og ungmenni, óháð kyni og bakgrunni, fái tækifæri, finni tilgang og meti sig að verðleikum. Með sameiginlegu átaki og hlýju getum við skapað framtíð þar sem öll börn finna styrk og von í eigin lífi. Líðan barna nú mun móta sögu og styrk Íslands á næstu árum og áratugum.
Lagið „Heimahöfn“, sem Fjallabræður fluttu hér í upphafi, minnir okkur á mikilvægi þess að tilheyra sterku samfélagi og eiga í öruggt skjól að venda. Þörfin fyrir að tilheyra er grunnstoð hamingju og farsældar. Ég fann þetta vel þegar ég heimsótti fanga á Litla-Hrauni á aðventunni. Þar sinna sjálfboðaliðar kærleiksríku starfi í þágu fólks sem hefur villst af leið og þarf á stuðningi að halda til að finna aftur sína heimahöfn. Það er heillavænlegast fyrir samfélagið allt að enginn sé jaðarsettur, að við styðjum við þá sem misstíga sig, verða fyrir áföllum og glíma við erfiðleika.
Í mínum embættisstörfum hitti ég nær daglega fólk sem starfar af hugsjón í björgunarsveitum, kvenfélögum, kórum, íþróttafélögum og fjölmörgum almannaheillasamtökum. Hér á landi er einstaklega sterk hefð fyrir sjálfboðaliðastarfi. Slík starfsemi styrkir samfélagið okkar svo um munar og býður einnig þeim sem taka þátt upp á ómetanlega heimahöfn. Höfum í huga að traust og öflugt samfélag byggist á sameiginlegri ábyrgð fremur en einstaklingssigrum. Við erum öll, á einn eða annan hátt, í björgunarsveitum Íslands.
Góðir Íslendingar, kæru vinir.
Á þessu ári minnumst við þess að fjörutíu ár eru liðin frá fundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjovs, leiðtoga Sovétríkjanna, í Höfða. Í hvítu timburhúsi við hafið hófu tveir leiðtogar samtal sem breytti heiminum. Þessi fundur minnir okkur á að þótt við séum fámenn þjóð getum við byggt brýr milli ólíkra sjónarmiða og skapað vettvang samtals sem skiptir máli.
Á komandi tímum skulum við byggja upp samfélag sem stendur vörð um mannlega reisn, eflir traust og tryggir öllum tækifæri til að vaxa og dafna. Framtíðin er ekki eitthvað sem einfaldlega gerist, hún er veruleiki sem við mótum saman. Ef við þráum frið verðum við að tala fyrir friði. Ef við þráum réttlæti verðum við að standa vörð um það. Ef við viljum búa í samfélagi sem byggir á virðingu og kærleika verðum við sjálf að rækta þau gildi í orði og verki – heima fyrir, á vinnustað og í opinberri umræðu.
Við getum ekki stjórnað öllu sem á vegi okkar verður en við getum stjórnað eigin viðbrögðum við því. Við getum valið að sjá hið góða, hvetja hvert annað til dáða og byggja á styrkleikum okkar sem þjóðar. Saga okkar sýnir að þegar mest á reynir stöndum við Íslendingar saman og þá skiptir samhugur, hugrekki og trú á framtíðina mestu máli.
Megi komandi ár verða ár samstöðu, hugrekkis og hjartahlýju. Megi hver og einn finna sína heimahöfn. Og megi friður ríkja í hjörtum okkar og meðal þjóða heims.