• Ljósmynd: Sigurjón Ragnar.
  • Ljósmynd: Sigurjón Ragnar
  • Ljósmynd: Sigurjón Ragnar
  • Ljósmynd: Sigurjón Ragnar
Fréttir | 10. jan. 2025

Ungir frumkvöðlar

Forseti flytur opnunarávarp á Sparkinu 2025, fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla, Junior Achievement á Íslandi. Verkefnið fer fram í framhaldsskólum landsins á vorönn 2025 og taka um 700-800 nemendur þátt í því.

Opnunarviðburðurinn var haldinn í Háskólanum í Reykjavík og jafnframt sýndur í beinu streymi og má sjá upptökuna hér. Í ávarpi sínu sagði forseti nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi lengi hafa verið sér hjartans mál enda hafi hún kennt námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja við Háskólann í Reykjavík fyrir rúmum aldarfjórðungi. Hugtakið nýsköpun hafi þá komið mörgum spánskt fyrir sjónir og því sé fagnaðarefni að nú fái hundruð framhaldsskólanema tækifæri til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. 

„Ég leyfi mér að fullyrða að fátt sé jafn lærdómsríkt og að ganga í gegnum frumkvöðlaferlið. Að virkja sköpunarkraftinn til að fæða af sér góða hugmynd og starfa saman í hópi ólíkra einstaklinga við að hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd,“ sagði forseti í ræðu sinni. Um leið hvatti hún unga frumkvöðla til þess að hafa í huga hvort nýsköpun þeirra sé til þess fallin að leysa vandamál og bæta líðan fólks eða gangverk samfélagsins. „Ég er sannfærð um að fyrirtæki sem eru byggð á grunni góðs tilgangs og gilda ná lengra – og gefa jafnframt meira af sér.“

Markmiðið að búa ungt fólk undir framtíðina

Að máli forseta loknu sagði Orri Einarsson, stjórnarmaður í JA Alumni, frá starfsemi samtakanna á önninni. Að lokum sögðu vinningshafar úr smiðjum fyrri ára frá reynslu sinni og hvað á daga þeirra hefur drifið frá þátttöku í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla.

Samtökin Ungir frumkvöðlar á Íslandi voru stofnuð árið 2022 og eiga þau aðild að alþjóðlegu félagasamtökunum Junior Achievement sem starfa í 123 löndum. Um 15 milljón nemendur taka þátt í verkefnum á vegum samtakanna víðs vegar um heiminn. Markmið JA er að búa ungt fólk undir framtíðina og auka færni þess til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að efla nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í skólum.

Sjá pistil forseta: Fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar