• Forseti ásamt Fjallabræðrum á Bessastöðum. Ljósmynd: RÚV.
  • Forseti ásamt Fjallabræðrum á Bessastöðum. Ljósmynd: RÚV.
Fréttir | 02. jan. 2026

Heimahöfn Fjallabræðra

Á undan nýársávarpi forseta frumfluttu Fjallabræður lagið „Heimahöfn“ eftir Fjallabróðurinn Halldór Gunnar Pálsson og Hákon Guðna Hjartarson sjómann. Forseti bað þá um að lýsa í stuttu máli inntaki og tilurð lagsins og birti lýsingar þeirra á samfélagsmiðlum í gærdag. Þær eru endurbirtar hér fyrir neðan en fyrst kemur texti lagsins.

Sólin breiðir út faðminn
kveður nóttina
loks er allt orðið eðlilegt
bjart er framundan
á himnum heyrist lófatak
ég brosi, býð þér góðan dag.

Ég fann leiðina heim
ég fann leiðina heim
allt sem ég geri og læri svo af
er allt fyrir okkur og framtíðina
hér logar ljós sem lýsir alla leið
í heimahöfn.

Þegar sólin sest einn dag
inn í nóttina
vil ég horfa út á fjörðinn
sjá þig halda út á haf
elta stjörnurnar
á nýjan stað
þú mætir því sem koma skal
brosir, býður góðan dag.

Þú kannt leiðina heim
þú kannt leiðina heim
allt sem þú gerir og lærir svo af
allt sem þig dreymir og stefnir svo að
hér logar ljós sem lýsir alla leið
í heimahöfn
í heimahöfn.

Halldór lýsir inntaki lagsins svo: „Frá okkar sjónarhorni fjallar lagið um þá mannlegu þörf að finna hvar maður á heima og hvað það er sem kveikir þá tilfinningu. Í sumum tilvikum er það að eignast barn. Það getur líka þýtt að eignast vin, maka eða einfaldlega einhvern sem veldur straumhvörfum í lífi þínu eða lætur þér líða öruggum. Heima er þar sem þú ert. Heima er þar sem hjartað slær. Heima ert þú. Lagið fjallar einnig um mikilvægi þess að vera „heimahöfn“ fyrir aðra: að vera til staðar, vera akkeri, öryggi og leiðarljós. Með því getur þú stuðlað að því að sá einstaklingur geti siglt öruggur út á haf í leit að stjörnunum, vitandi það að alltaf er hægt að leita til baka í heimahöfn. Einn mesti fjársjóður lífsins er að finna einhvern sem lætur þér líða eins og þú eigir einhvers staðar heima. Þeir sem eiga ekki í örugga höfn að sækja geta verið í hættu á að villast úti á hafi.“

Hákon lýsir tilurð textans svo: „Ég var á leiðinni í land eftir þriggja vikna úthald á sjó. Við vorum að dóla okkur inn Eyjafjörðinn í sólarupprásinni þegar það fór að glitta í Akureyri, mína heimahöfn. Strákurinn minn beið eftir mér heima, það var fjölskyldumatarboð um kvöldið og vinahittingur um helgina. Ég var kominn heim. Út frá þessari tilfinningu, sem Halldór tengdi á sinn hátt svo vel við, varð þetta lag til. Það fjallar um þá grunnþörf að tilheyra og öryggið í því að vita að einhver grípur mann þegar maður þarf á því að halda. En fyrst og fremst fjallar það um stærsta verkefni lífsins: að standa vörð um það að börnin rati alltaf í sína heimahöfn.“

Þess má geta að lagið er líka aðgengilegt á efnisveitum.

Heimahöfn
Lag og texti eftir Halldór Gunnar Pálsson og Hákon Guðna Hjartarsson.
Kórúsetning: Ingvar Alfreðsson.
Flutningur: Fjallabræður.
Gítar: Halldór Gunnar.
Píanó: Halldór Smárason.
Bassi: Valdimar Olgeirsson.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar