Fréttir | 14. mars 2025

Mín framtíð

Forsetahjón sækja kynningarviðburðinn Mín framtíð 2025 sem fram fer í Laugardalshöll samhliða Íslandsmót iðn- og verkgreina. Nemendum 9. og 10. bekkjar er boðið á framhaldsskólakynninguna Mín framtíð og sækja hana allt að 10.000 grunnskólanemendur víðsvegar að af landinu til að skoða námsleiðir framhaldsskólanna, kynnast iðngreinum, spjalla við nemendur skólanna og jafnvel prófa handtökin sjálf.

Á sama tíma heldur Verkiðn Íslandsmót iðn- og verkgreina, þar sem keppendur reyna á hæfni sína í krefjandi verkefnum. Keppt hefur verið í 20 – 27 greinum hverju sinni og takast keppendur á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku.

Forsetahjón fengu leiðsögn um sýninguna í Laugardalshöll þar sem þau gengu milli bása og ræddu bæði við grunn- og framhaldsskólanemendur. Að því loknu var forsetahjónum boðið í margréttaðan hádegisverð sem matreiðslunemar elduðu og þjónanemar báru á borð í höllinni.

Viðburðurinn er haldinn árlega í samvinnu Verkiðn, Skills Iceland, við Mennta- og barnamálaráðuneytið, sveitarfélög og fagfélög iðn- og starfsgreina. Sérstök áhersla á Mín framtíð 2025 er á mikilvægi iðn- og verkgreina og svokallaðra Steam-greina; vísindi, tækni, verkfræði, listsköpun og stærðfræði. 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar