• Ljósmynd: Clément Morin / Kungahuset
  • Ljósmynd: Leifur Rögnvaldsson/Skrifstofa forseta Íslands
  • Ljósmynd: Leifur Rögnvaldsson/Skrifstofa forseta Íslands
  • Ljósmynd: Leifur Rögnvaldsson/Skrifstofa forseta Íslands
  • Ljósmynd: Leifur Rögnvaldsson/Skrifstofa forseta Íslands
  • Ljósmynd: Leifur Rögnvaldsson/Skrifstofa forseta Íslands
  • Ljósmynd: Leifur Rögnvaldsson/Skrifstofa forseta Íslands
  • Ljósmynd: Leifur Rögnvaldsson/Skrifstofa forseta Íslands
  • Ljósmynd: Leifur Rögnvaldsson/Skrifstofa forseta Íslands
Fréttir | 06. maí 2025

Konunglegar móttökur

Forsetahjón hefja þriggja daga ríkisheimsókn sína til Svíþjóðar. Gestgjafar þeirra eru Karl XVI. Gústaf konungur og Silvía drottning. Þau tóku á móti forseta Íslands og eiginmanni hennar í formlegri móttökuathöfn þar sem konungshjón og forsetahjón fóru í hestvagni um miðborg Stokkhólms að konungshöllinni. 

Þar voru þjóðsöngvar beggja landa leiknir og forseti kannaði heiðursvörð lífvarðasveitar konungs. Alls tóku um þúsund hermenn úr sænska hernum þátt í þessari athöfn.

Myndasafn frá ríkisheimsókn til Svíþjóðar.

Gjafaskipti og fjölmiðlafundur

Í höllinni fóru fram gjafaskipti. Forsetahjón færðu konungshjónum glerskúlptúrinn „Öskulúru“ eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur sem innblásinn er af öskufalli úr Eyjafjallajökli árið 2010. Viktoríu krónprinsessu og Daníel, eiginmanni hennar, var færður blómavasi úr endurunnu gleri frá sænsku hönnunarstofunni Navet í samvinnu við íslenska hönnunarmerkið FÓLK í Reykjavík.

Að lokinni móttökuathöfn kom forseti fram á fjölmiðlafundi ásamt Svíakonungi þar sem þau fluttu stuttar yfirlýsingar um samband þjóðanna og heimsóknina framundan. Ávarpsorð forseta til fjölmiðla má lesa hér.

Forseti heimsótti sænska löggjafarþingið, riksdagen, og átti þar fund með Andreas Norlén þingforseta. Einnig átti forseti fund með Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. Þá var farið í siglingu um skerjagarðinn í Stokkhólmi með varðbát í eigu sænsku Landhelgisgæslunnar og starfsemi hennar kynnt. Með í för var Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Norræn samstaða í hátíðarræðu

Fyrsta degi ríkisheimsóknar lauk með hátíðarkvöldverði í konungshöllinni til heiðurs forseta Íslands. Í borðræðu sinni færði forseti sænsku konungsfjölskyldunni þakkir og vék sérstaklega að auknu gildi norrænnar samstöðu á óvissutímum. 

„Saga norrænnar samvinnu undanfarna áratugi er samtvinnuð baráttunni fyrir friði og trú á gildi hins mjúka valds; að deila ábyrgð og miðla þekkingu af mildi, með sögum og samvinnu. Nú er öll norræna fjölskyldan sameinuð í Atlantshafsbandalaginu og norrænt samstarf hefur opnað á nýja vídd í öryggis- og varnarmálum. Þar skulum við, sem annars staðar, standa vörð um okkar dýrmætu gildi og hafa kærleikann í fyrirrúmi,“ sagði í borðræðu forseta, sem flutt var á íslensku og má lesa hér.

Sjá einnig pistil forseta: Kærleikurinn er trompið okkar

Fulltrúar ríkisstjórnar, viðskiptalífs og menningarlífs með í för

Markmið ríkisheimsóknar til Svíþjóðar er að styrkja hin góðu tengsl landanna og vinna að frekara samstarfi, svo sem á sviði heilbrigðismála, kvikmyndagerðar og öryggismála.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra taka einnig þátt í dagskrá heimsóknarinnar ásamt opinberri sendinefnd og fulltrúum viðskipta- og menningarlífs. Samhliða ríkisheimsókninni fer viðskiptasendinefnd á vegum Íslandsstofu til Svíþjóðar og eru í henni fulltrúar 30 íslenskra fyrirtækja sem leggja áherslu á líftækni, nýsköpun og fjárfestingar.

Í tilefni heimsóknarinnar fer einnig sendinefnd á sviði sjónvarps- og kvikmyndagerðar til Stokkhólms og tekur þar þátt í dagskrá sem skipulögð er í samstarfi Svenska institutet og sænska utanríkisráðuneytisins við Kvikmyndamiðstöð Íslands og Film in Iceland.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar