Forsetahjón hefja þriggja daga ríkisheimsókn sína til Svíþjóðar. Gestgjafar þeirra eru Karl XVI. Gústaf konungur og Silvía drottning. Þau tóku á móti forseta Íslands og eiginmanni hennar með formlegri móttökuathöfn þar sem konungshjón og forsetahjón fóru í hestvagni um miðborg Stokkhólms og enduðu við konungshöllina.
Þar voru þjóðsöngvar beggja landa voru leiknir og forseti kannaði heiðursvörð konungs. Alls tóku um þúsund hermenn úr sænska hernum þátt í móttökuathöfninni.
Gjafaskipti og fjölmiðlafundur
Í höllinni fóru fram gjafaskipti. Forsetahjón færðu konungshjónum glerskúlptúrinn „Öskulúra“ eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur, sem innblásinn er af öskufalli úr Eyjafjallajökli árið 2010. Viktoríu krónprinsessu og eiginmanni hennar Daníel prinsi var færður blómavasi úr endurunni gleri frá sænsku hönnunarstofunni Navet í samvinnu við íslenska hönnunarmerkið FÓLK í Reykjavík.
Að lokinni móttökuathöfn kom forseti fram á fjölmiðlafundi ásamt Svíakonungi þar sem þau fluttu stuttar yfirlýsingar um samband þjóðanna og heimsóknina framundan. Ávarpsorð forseta til fjölmiðla má lesa hér.
Dagskrá fyrsta dagsins lauk með hátíðarkvöldverði í höllinni forseta Íslands til heiðurs. Borðræðu forseta má lesa hér.
Fulltrúar ríkisstjórnar, viðskiptalífs og menningarlífs með í för
Markmið heimsóknarinnar er að styrkja hin góðu tengsl landanna og vinna að frekara samstarfi svo sem á sviði heilbrigðismála, kvikmyndagerðar og öryggismála.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra taka einnig þátt í dagskrá heimsóknarinnar ásamt opinberri sendinefnd og fulltrúum viðskipta- og menningarlífs. Samhliða ríkisheimsókninni fer viðskiptasendinefnd, leidd af Íslandsstofu, til Svíþjóðar með fulltrúum 30 íslenskra fyrirtækja með áherslu á líftækni, nýsköpun og fjárfestingar.
Í tilefni heimsóknarinnar fer einnig sendinefnd á sviði sjónvarps- og kvikmyndagerðar og tekur þar þátt í dagskrá sem skipulögð er í samstarfi Swedish institute og sænska utanríkisráðuneytisins við Kvikmyndamiðstöð Íslands og Film in Iceland.