Fréttir | 09. maí 2025

Velsældarþing og Spirit of Humanity

Forseti tekur þátt í Velsældarþingi 2025 (e. The Wellbeing Economy Forum) sem fram fer í Hörpu í Reykjavík dagana 8-9. maí. Forseti er verndari þingsins, sem er nú haldið í þriðja sinn. Embætti landlæknis skipuleggur Velsældarþingið ásamt innlendum og erlendum samstarfsaðilum. Þar koma saman stjórnmálamenn, fræðimenn, fulltrúar fyrirtækja, sveitarfélaga og ýmissa stofnana. Markmiðið er að stuðla að samvinnu um mótun velsældarhagkerfis, greiða fyrir innleiðingu þess sem og að dýpka skilning á hugtakinu velsældarhagkerfi. 

Íslensk stjórnvöld hafa frá 2018 verið þátttakendur í samstarfi nokkurra ríkja um velsældarhagkerfi, Wellbeing Economy Governments (WEGo), ásamt Finnlandi, Kanada, Skotlandi, Nýja-Sjálandi og Wales. Með innleiðingu velsældarhagkerfis er átt við að við mat á lífskjörum og lífsgæðum sé litið til fleiri þátta en rúmast innan hefðbundinna efnahagslegra mælikvarða. Má þar nefna þætti eins og húsnæðisöryggi, líkamlega og andlega heilsu, umhverfi, lífsánægju, borgaralega þátttöku, öryggi samfélagsins og jafnvægi vinnu og einkalífs.

Samkennd og hugrekki á breytingatímum

Á öðrum degi Velsældarþingsins tók forseti þátt í viðburði sem haldinn var sameiginlega með alþjóðlega leiðtogaþinginu Spirit of Humanity Forum. Viðburðurinn fór fram í Hörpu undir yfirskriftinni „Innri viska í forystu og stjórnarháttum - að leiða með hugrekki og samkennd”. Viðburðurinn hófst með hugleiðslustund, en að henni lokinni tók forseti tók þátt í samtali við Sandrine Dixson, alþjóðlegan sendiherra Club of Rome og framkvæmdastjóra Earth4All, og Dr. Jude Currivan rithöfund, skammtaeðlisfræðing og stofnanda WholeWorld View.

Áhersla samtalsins var á hvernig stuðla megi að innleiðingu velsældar í hagkerfi heimsins. Rætt var um þörf á breyttri forystu á tímum mikilla samfélagslegra áskorana með gildi svo sem hugrekki og samkennd að leiðarljósi. Hópur ungra leiðtoga víða að úr heiminum tók einnig þátt í viðburðinum ásamt forseta. Þau deildu sinni sýn, reynslu og þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir við að leiða breytingar í samtímanum.

Síðdegis fór fram móttaka á Bessastöðum fyrir skipuleggendur og þáttakendur Velsældarþingsins.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar