Fréttir | 15. maí 2025

Eyrarrósin

Eiginmaður forseta, Björn Skúlason, flytur ávarp og afhendir Eyrarrósina við hátíðlega athöfn á Siglufirði. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista.

Maki forseta er verndari Eyrarrósarinnar sem er nú afhent í 20. sinn, en á undan Birni fóru þær Eliza Reid og Dorritt Mousiaeff með verndarahlutverkið. Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Icelandair og Listahátíð í Reykjavík.

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði verðlaunuð

Að þessu sinni hlaut Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði viðurkenninguna. Sköpunarmiðstöðin er menningarsetur og vettvangur fyrir fjölbreyttar lista-, menningar- og nýsköpunarstarfsemi. Í umsögn dómnefndar segir að Sköpunarmiðstöðin auðgi menningarlíf svæðisins svo um munar sem náttúrulegur vettvangur fyrir lifandi viðburði, bæði skipulagða og sjálfsprottna. Hún eykur þátttöku og aðgengi íbúa að listum og menningu og eflir menningarlæsi.

Eftir 15 ára starf hefur Sköpunarmiðstöðin nú verið viðurkennd sem fjórða menningarsetur Austurlands, ásamt Sláturhúsinu, Skaftfelli og Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Þrír sprotar fá hvatningu 

Við sama tilefni voru Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar veitt í þriðja sinn, til þriggja nýrra menningarverkefna sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og burði til þess að festa sig í sessi. Verkefnin eru:

Gletta, sýningarrými sem leggur áherslu á samtímamyndlist á Borgarfirði Eystri.

Afhverju Ekki, þverfaglega vinnstofu- og rannsóknarsetur, einnig nefnt „The Absolutely Everything Studio“, sem stofnað var árið 2024 á Breiðanesi á Laugum í Þingeyjarsveit.

Tankarnir á Raufarhöfn, lýsistankar sem stóðu tómir frá 2006 en hafa nú, að ósk íbúa, fengið nýtt hlutverk og breytast í listatanka.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar