Forsetahjón heimsækja Japan dagana 26. maí til 1. júní í tilefni af heimssýningunni EXPO 2025 sem fram fer í Osaka. Sýningin var opnuð í apríl og stendur fram í október.
Ísland tekur þátt í samnorrænum sýningarskála á heimssýningunni ásamt Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Megináhersla skálans er að gefa innsýn í lífið í norðri, norræn gildi og náið samband Norðurlandaþjóða við náttúruna. Forseti verður heiðursgestur á þjóðardegi Íslands sem fagnað verður í norræna skálanum þann 29. maí. Yfirskrift dagsins er „Friður og jafnrétti“ og tekur forseti þátt í fjölbreyttri dagskrá þar sem gestum gefst kostur á að upplifa íslenska menningu í gegnum fræðandi samtöl, tónlist, bókmenntir og hönnun.
Fundar með Japanskeisara og forsætisráðherra
Samhliða heimssýningunni í Osaka stendur Íslandsstofa fyrir hátíðinni Taste of Iceland í Tókýó dagana 30.-31. maí, þar sem forseti tekur einnig þátt. Markmið hátíðarinnar er að kynna íslenska menningu, matargerð og Ísland sem áfangastað fyrir japönskum almenningi og fagfólki.
Á meðan á heimsókninni til Japans stendur fer forseti til fundar við Naruhito Japanskeisara. Þá mun hún eiga fund með Ishiba Shigeru, forsætisráðherra Japans.