Í tilefni Menningarnætur verður forsetasetrið að Bessastöðum opið almenningi laugardaginn 23. ágúst. Býðst fólki að skoða staðinn milli kl. 15:00 og 18:00 og taka forsetahjón á móti gestum frá kl. 16.00. Bessastaðir eiga sér merka sögu. Auk Bessastaðastofu, sem byggð var á 18. öld, geta gestir skoðað móttökusal og bókhlöðu forsetasetursins sem eru síðari tíma viðbyggingar. Í húsinu má sjá úrval myndlistar eftir íslenska listamenn og sýnishorn gjafa sem borist hafa embættinu. Þá verða til sýnis gripir sem fundist hafa við fornleifarannsóknir og veita innsýn í búsetu á Bessastöðum á fyrri tíð. Að þessu sinni verður Bessastaðakirkja lokuð vegna framkvæmda og fornleifauppgraftar. Eins verður fornleifakjallarinn lokaður.