• Þáttakendur í samtali á Bessastöðum um símafrið.
Fréttir | 01. sep. 2025

Snjalltæki og tengslarof

Forseti boðaði til samtals á Bessastöðum með ungu fólki og ýmsum fagaðilum til að ræða áhrif snjalltækja- og samfélagsmiðla á líf og líðan barna og ungmenna, sem og uppalenda þeirra. Forseti hefur rætt opinberlega um þetta efni undanfarin misseri og sagði m.a. í ávarpi á Hólahátíð í ágúst:

„Athyglissamfélagið, eins og farið er að kalla þá þjóðfélagsgerð sem við búum nú við, hefur að mínu mati rænt okkur innri og ytri ró, aukið bilið milli kynslóða, rofið tengsl okkar hvert við annað og snertinguna við náttúruna í kringum okkur. Við leggjum jafnvel meiri rækt við skjáinn en velferð okkar sjálfra og nánustu ættingja.“

Meðal þess sem bar á góma meðal gesta voru símasiðir fullorðinna, stafrænn útivistartími, öryggishlutverk símtækja og þau tvíbentu áhrif sem boð og bönn geta haft ef ekki er hugað að jákvæðri og uppbyggilegri fræðslu. Ákveðið var að halda umræðum um efnið áfram og hvetja til frekara samstarfs á þessum vettvangi.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar