Forseti varði deginum á Ísafirði og Flateyri. Fyrir hádegi átti hún fund með bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, og heimsóttu þær síðan íþróttafélagið Vestra. Lið meistaraflokks karla hjá Vestra leikur í Bestu deildinni og vann nýverið bikarkeppnina í knattspyrnu.
Um hádegisbil opnaði forseti sýninguna Gullkistan Vestfirðir í íþróttahúsinu Torfnesi. Sýningin varpaði ljósi á hvað Vestfirðir hafa upp á að bjóða í atvinnulífi og menningu og kynntu hátt í 80 fyrirtæki og stofnanir þar starfsemi sína.
Eftir hádegi fór forseti til Flateyrar og flutti þar ávarp við setningu Lýðskólans á Flateyri. Skólinn er að hefja sitt áttunda starfsár og eru nemendur í ár tuttugu talsins. Einnig heimsótti forseti vinnustofu myndlistarkonunnar Jean Larson. Larson hefur m.a. málað tólf vegglistaverk af íslenskum fuglum á húsveggi bygginga á Flateyri undir heitinu Flatbirds. Setja verk hennar sterkan svip á bæinn.