Forseti setti Alþingi við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Í ávarpi sínu ræddi forseti um mikilvægi þess að traust og virðing ríktu í samskiptum fólks, hvort sem væri á heimilum og vinnustöðum eða almennt í samfélaginu. Hún lýsti áhyggjum yfir hatramri orðræðu sem færi vaxandi, ekki síst á samfélagsmiðlum, og hvatti fólk til að velja orð sín af yfirvegun og nærgætni. Þó að Alþingi væri og ætti að vera vettvangur ólíkra sjónarmiða slægju þingmenn gjarnan tóninn í samfélagsumræðunni og bæru ríkari ábyrgð en aðrir af þeim sökum.
Forseti vék einnig að þróun mála á alþjóðavettvangi. Hún sagði að víða mætti sjá afleiðingar af dvínandi trausti á stofnunum og lýðræðishefðum innan samfélaga, sem og virðingarleysi gagnvart alþjóðlegu samstarfi. „Farsælar lausnir, hvort sem er á heimavelli eða á alþjóðavettvangi, krefjast gagnkvæms trausts og virðingar fyrir skoðunum annarra, og skilnings á því að við lítum oft áskoranir og lausnir ólíkum augum. Það er eðlilegt, heilbrigt og umfram allt mannlegt. En viðbrögð okkar við ólíkum skoðunum þurfa líka að vera eðlileg, heilbrigð og mannleg.“
Forseti vék sérstaklega að gervigreindarbyltingunni, þar á meðal djúpfölsunum og frjálslegri meðferð spjallmenna á staðreyndum. Tímabært væri að setja þessari þróun eðlileg mörk. Í niðurlagi hvatti forseti þingmenn til að setja starfinu innan þingsins skynsamlegan ramma sem tryggði í senn málfrelsi og framgang lýðræðisins. Hún sagði að með því að hlúa að virðingu þingsins og trausti á þingræðinu væri um leið verið að efla traust innan samfélagsins. „Það er bjargföst trú mín að íslenska þjóðin, sem hefur fengið ómældan menningar- og náttúruauð í vöggugjöf og býr yfir lofsverðum sköpunarkrafti, eigi bjarta framtíð fyrir höndum, svo lengi sem hér ríkir traust og við tölum og vinnum saman af virðingu og ábyrgð.“
Ávarp forseta má lesa hér á íslensku og hér í enskri þýðingu.