Forseti tók á móti íslenskum þátttakendum í EuroSkills, Evrópumóti iðn- og verkgreina, sem fram fór í Danmörku dagana 9. til 13. september. Keppt er á tveggja ára fresti og voru þrettán keppendur sendir til leiks frá Íslandi að þessu sinni. Verkiðn, samtök um keppnir í iðn- og verkgreinum á Íslandi, skipuleggur þátttöku Íslands í mótinu.
Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, sem situr í stjórn Verkiðnar, flutti stutt ávarp á Bessastöðum þar sem hann óskaði hópnum til hamingju með frábæran árangur en þar stóðu upp úr bronsverðlaun Gunnars Guðmundssonar, keppanda í iðnaðarrafmagni.
Forseti tók undir þær óskir og ræddi um mikilvægi iðnmenntunar í skólakerfinu. Hún sagði ástæðu til að minna ungt fólk á að þarna væri um að ræða störf sem gervigreind myndi seint eða aldrei gera óþörf. Í kjölfarið afhenti forseti keppendum, þjálfurum og liðstjóra íslenska hópsins viðurkenningar fyrir þátttökuna í EuroSkills.