Forseti tók þátt í afmælishátíð á sal Flensborgarskólans í Hafnarfirði þar sem þess var meðal annars minnst að 50 ár eru liðin frá því að skólinn brautskráði stúdenta í fyrsta sinn. Í ávarpi sínu hvatti forseti nemendur til að rækta kærleikann í samskiptum og hlúa að þeim sem stæðu höllum fæti.
Forseti minntist þess sérstaklega að á þessu ári eru liðin 175 ár frá fæðingu Böðvars Þórarinssonar. Hann var sonur séra Þórarins Böðvarssonar og Þórunnar Jónsdóttur en lést fyrir aldur fram 1869, aðeins 19 ára gamall. Séra Þórarinn og Þórunn keyptu nokkrum árum síðar húsnæði verslunarinnar Flensborgar í Hafnarfirði og komu þar á fót barnaskóla 1877 í minningu Böðvars. Fimm árum síðar var skólanum breytt í alþýðu- og gagnfræðaskóla en frá með 1970 varð til vísir að þeim fjölbrautarskóla sem nú er starfræktur. Forseti benti á að draga mætti víðtækari lærdóm af viðbrögðum prófastshjónanna í Garði við sárum sonarmissi.
"Þannig geta sorglegir atburðir stundum leitt af sér eitthvað gott sem er einmitt það sem að foreldrar Bryndísar Klöru kölluðu eftir í kjölfar þess að hnífstunguárás leiddi til dauða hennar fyrir rúmlega ári síðan. Ákall þeirra varð til þess að góður hópur fólks, er lætur sig varða stöðu og líðan ungs fólks, kom saman á Bessastöðum og til varð hreyfingin Riddarar kærleikans. Við sem ræddum saman þennan laugardagseftirmiðdag vildum mæta vaxandi vanlíðan og ofbeldi með því eina sem við teljum vera því yfirsterkara, kærleikanum. Mig langar til að hvetja ykkur, sem hér eruð, til að kynna ykkur þá hreyfingu, að velja að vera riddarar kærleikans, því heimurinn þarf sárlega á fleirum að halda sem mæta til leiks með kærleika í brjósi."
Að lokinni dagskrá á sal vígði forseti útikennslustofu sem komið hefur verið upp við inngang Flensborgarskóla.