• Forseti ásamt nemendum í Vogaskóla á Forvarnardeginum 2025. Ljósmynd: Jón Aðalsteinn Bergsveinsson.
Fréttir | 01. okt. 2025

Eru snjalltæki tóbak nútímans?

Forseti flutti opnunarávarp í Vogaskóla þegar Forvarnardagurinn 2025 var settur. Ávarpið var hluti af málþinginu Samvera – að tilheyra – tengsl en meðal annarra sem þar tóku til máls voru María Heimisdóttir landlæknir, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir frá Jafningjafræðslu Hins hússins og Eva Karítas Bóasdóttir, nemandi við Verslunarskóla Íslands. Einnig var flutt kveðja frá Emblu Backman og Kára Einarssyni, sem taka þátt í hreyfingunni Riddarar kærleikans.

Í ávarpi sínu rifjaði forseti upp þegar gert var vel heppnað þjóðarátak gegn reykingum. Hún sagði að í vissum skilningi væru snjalltæki og samfélagsmiðlar "tóbak nútímans, því um leið og við fengum heiminn í hönd okkar byrjuðum við að missa margt það sem er okkur lífsnauðsynlegt, eins og heilbrigð tengsl við okkur sjálf – að okkur geti t.d. leiðst – félagsleg tengsl við aðra, vini og fjölskyldu, tengsl við leik og útiveru og allt það sem færir okkur sól í augu og gleði í hjarta. Sumt efni í þessum miðlum er til þess hannað að gera okkur að fíklum." Hvatti forseti til samfélagslegs átaks "til að setja þessum rænu- og róþjófum einhver skynsamleg mörk".

Ennfremur ræddi forseti um leiðir til að stemma stigu við vaxandi ofbeldi í samfélaginu. Hún minnti á hreyfinguna Riddara kærleikans sem stofnuð var fyrir um ári síðan, í kjölfar hnífsstunguárasar sem leiddi til dauða sextárn ára stúlku, Bryndísar Klöru Birgisdóttir. "Harka og hatur er ekki rétta svarið við vaxandi vanlíðan og ofbeldi," sagði forseti meðal annars. "Kærleikur í eigin garð sem annarra er öflugasta viðbragðið. Við stjórnum sjaldnast því sem gerist í kringum okkur en við getum lært að stjórna viðbrögðum okkar, þroskað með okkur þá seiglu og þann sveigjanleika sem krefjandi tímar kalla á og mætt með kærleikann til leiks. Ekkert annað er betur til þess fallið að afvopna þá sem beita einelti og öðrum afbrigðum ofbeldis."

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins en samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta, Ríkislögreglustjóri og Heimili og skóli.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar