• Forsetahöllin í Helsinki. Ljósmynd: Finnska forsetaembættið.
Fréttir | 06. okt. 2025

Ríkisheimsókn til Finnlands hefst á morgun

Á morgun hefst tveggja daga ríkisheimsókn forseta og eiginmanns hennar, Björs Skúlasonar, til Finnlands. Forseti Finnlands, Alexander Stubb, og eiginkona hans, Suzanne Innes-Stubb, bjóða til þessarar heimsóknar og er markmið hennar að styrkja hin góðu tengsl Íslands og Finnlands. Í fylgdarliði forseta er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, ásamt opinberri sendinefnd. Samhliða ríkisheimsókninni fer viðskiptasendinefnd, leidd af Íslandsstofu, til Finnlands með fulltrúum hátt í 30 íslenskra fyrirtækja á sviði orkumála, hátækni og leikjaiðnaðar. Forsetahjón og og utanríkisráðherra lentu ásamt fylgdarliði í Helsinki um hádegisbil og sitja kvöldverð hjá íslenska sendiherranum, Harald Aspelund, í kvöld en opinber dagskrá heimsóknar hefst á morgun.

Finnsku forsetahjónin bjóða íslensku forsetahjónin formlega velkomin til Finnlands framan við forsetahöllina í Helsinki kl. 10.00, þriðjudaginn 7. október. Í kjölfarið eiga forsetarnir fund í forsetahöllinni en að honum loknum svara þau spurningum blaðamanna. Meðal annarra dagskrárliða þennan dag er hádegisverður í boði Daniel Sazonov, borgarstjóra Helsinki, og heimsókn í þinghúsið þar sem forseti Íslands fundar með þingforsetanum Jussi Halla-aho. Að því loknu heldur hún til fundar við forsætisráðherra Finnlands, Petteri Orpo, í embættisbústaðnum Kesäranta. Samhliða dagskrá forseta heimsækja Björn Skúlason og Suzanne Innes-Stubb veitingastaðinn Nolla, Ólympíuleikvanginn í Helsinki og höfuðstöðvar líftæknifyrirtækisins Solar Foods. Fyrri degi heimsóknarinnar lýkur á kvöldverði sem finnsku forsetahjónin bjóða til í forsetahöllinni.

Miðvikudaginn 8. október halda forseti Íslands og maki til Espoo. Þau heimsækja m.a. miðstöð Nokia-fyrirtækisins í borginni og JA Yrityskylä, starfsþróunarvettvang þar sem skólabörnum úr 6. og 9. bekk gefst kostur á að setja sig í spor ólíkra fagstétta. Forsetahjónin sitja síðan hádegisverð í boði Kai Mykkänen, borgarstjóra Espoo. Þá liggur leiðin í Aalto-háskóla en þar taka forsetar landanna tveggja þátt í samræðum við nemendur um hlutverk leiðtoga á tímum hnattrænna breytinga. Síðdegis verður farið í heimsókn í Arkitekta- og hönnunarsafnið í Helsinki þar sem brátt opnar sýning um Múmíndal finnsku skáldkonunnar Tove Jansson. Heimsókninni lýkur á miðvikudagskvöld með gagnkvæmnismóttöku sem íslensku forsetahjónin bjóða til á veitingastaðnum Katajanokan Kasino í Helsinki. Þar skemmtir söngkonan GDRN gestum.

Sjá nánar dagskrá viðskiptasendinefndar á vef Íslandsstofu.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar