• Frá blaðamannafundi forseta Íslands og forseta Finnlands. Ljósmynd Karl Vilhjálmsson.
  • Forseti ásamt Jussi Halla-aho, forseta finnska þingsins.
  • Forseti ásamt finnska forsætisráðherranum, Petteri Orpo. Ljósmynd Karl Vilhjálmsson.
Fréttir | 07. okt. 2025

Styrkara samband Finnlands og Íslands

Á fyrri degi ríkisheimsóknar sinnar til Finnlands átti forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, fundi með Alexander Stubb, forseta Finnlands, Jussi Halla-aho, forseta Eduskunta – finnska þjóðþingsins, og Petteri Orpi, forsætisráðherra Finnlands. Einnig ræddu varnarmálaráðherra Finnlands og utanríkisráðherra Íslands saman og skrifuðu undir tvíhliða yfirlýsingu um nánara varnarsamstarf.

Fundur Höllu Tómasdóttur og Alexander Stubb í forsetahöllinni í Helsinki stóð yfir í um klukkustund. Fyrst ræddu þau einslega saman en síðan ásamt opinberum sendinefndum beggja landa. Meðal þess sem bar á góma voru margháttuð samskipti Finnlands og Íslands sem eiga sér langa og farsæla sögu en einnig samvinna þjóðanna á vettvangi Norðurlandaráðs. Málefni NATO og Norðurslóða voru rædd sérstaklega, sem og stuðningur beggja landa við Úkraínu. Einnig var fjallað um víðtæka samvinnu landanna á sviði menntunar og viðskipta, og líðan ungs fólks í löndunum tveimur.

Í kjölfar fundarins skrifuðu varnarmálaráðherra Finnlands, Antti Hakkanen, og utanríkisráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, undir tvíhliða yfirlýsingu um varnarsamstarf en ráðherrarnir höfðu áður rætt saman um sameiginlega hagsmuni og áherslur landanna í utanríkismálum. Þá var haldinn blaðamannafundur þar sem forsetarnir sögðu fyrst nokkur orð og svöruðu síðan spurningum blaðamanna. Hér má sjá upptöku frá blaðamannafundinum.

Eftir hádegið var á dagskrá heimsókn í finnska þjóðþingið. Forseti þingsins, Jussi Halla-aho, tók á móti forseta Íslands og íslensku sendinefndinni. Hópnum var sýnt þinghúsið en síðan var fundað með fulltrúum þeirra flokka sem eiga sæti á finnska þinginu. Rætt var m.a. um góð samskipti þjóðþinga beggja landa, stöðu mála í Finnlandi og Íslandi og samskipti Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Einnig komu málefni ungs fólks til tals og þau áhrif sem falsfréttir og áróður geta haft á lýðræðisþróun. 

Dagskrá eftirmiðdagsins lauk á fundi Höllu Tómasdóttur og Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, í embættisbústað þess síðarnefnda, Kesäranta. Þau ræddu fyrst einslega saman en síðan ásamt fulltrúum úr sendinefndum beggja landa. Rætt var m.a. um stöðu alþjóðamála á breiðum grundvelli í ljósi aukinnar spennu í alþjóðasamskiptum, minni tiltrú á alþjóðakerfið og skorti á virðingu fyrir alþjóðalögum. Dagskrá þessa fyrri dags ríkisheimsóknar forseta Íslands og maka til Finnlands lauk með kvöldverði í forsetahöllinni í boði forseta Finnlands og eiginkonu hans, Suzanne Innes-Stubb.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar