Forsetahjón, Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason, hófu tveggja daga ríkisheimsókn til Finnlands í morgun. Gestgjafar þeirra eru forseti Finnlands, Alexander Stubb, og eiginkona hans, Suzanne Innes-Stubb. Markmið heimsóknarinnar er að styrkja hin góðu tengsl Íslands og Finnlands, meðal annars á sviði viðskipta, varnarmála og orkumála.
Dagskráin hófst kl. 10.00 með formlegri móttökuathöfn framan við forsetahöllina í Helsinki. Lúðrasveit lék þjóðsöngva beggja landa og í kjölfarið voru opinberar sendinefndir kynntar fyrir forsetum og mökum þeirra. Því næst var gengið inn í forsetahöllina. Þar skráðu forseti Íslands og maki nöfn sín í gestabók, auk þess sem veittar voru orður og skipst á gjöfum.
Halla Tómasdóttir og Alexander Stubb áttu í kjölfarið klukkustundarlangan fund í forsetahöllinni en á meðan fóru Björn Skúlason og Suzanne Innes-Stubb, ásamt Ásthildi Jónsdóttur sendiherrafrú, í heimsókn á veitingastaðinn Nolla í Helsinki og þaðan á Ólympíuleikvanginn og á Tahto-íþróttasafnið. Forsetahjón beggja landa þáðu síðan hádegisverð í ráðhúsi Helsinki í boði borgarstjórans, Daniels Sazonov.