Að kvöldi fyrri dags ríkisheimsóknar forseta Íslands og maka til Finnlands sóttu þau ásamt fjölda gesta hátíðarkvöldverð sem finnsku forsetahjónin buðu til í forsetahöllinni í Helsinki. Undir borðum fluttu forsetarnir ræður. Bæði fjölluðu þau um löng og góð samskipti landanna og nefndu margt sem sameinaði Íslendinga og Finna, þar á meðal virðing fyrir lýðræðislegum hefðum og metnaður í jafnréttismálum.
Alexander Stubb, forseti Finnlands, rifjaði upp að í fyrstu ferð sinni til Íslands hefði hann verið keppandi á Norðurlandamóti í golfi sem fram fór í Keflavík 1988. Fyrsta keppnisdaginn hefði veðrið verið gott og að honum loknum var Stubb í hópi efstu manna. Næsta keppnisdag hefði hins vegar verið afar hvasst og haglél, sem fallið hefði lárétt, og gerði það fljótt út um vonir hans um að komast á verðlaunapall. Hann bætti við að veðrið gæti líka leikið Finna grátt á heimaslóðum en báðar þjóðir ættu sameiginlegt að mæta erfiðleikum af æðruleysi og útsjónarsemi. Hann sagði þróun alþjóðamála hafa styrkt náið og gott samband landanna enn frekar og sagðist binda vonir við að yfirstandandi heimsókn viðskiptanefndar frá Íslandi legði grunn að enn frekari viðskiptum milli Finnlands og Íslands.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, ræddi meðal annars um þá spennu sem gjarnan myndast á landamærum þjóða. Það væri nokkuð sem Finnar þekktu vel. Íslendingar deildu ekki hefðbundnum landamærum með öðrum en Ægi konungi. Aftur á móti væri viðvarandi spenna á landamærum náttúru og mannabyggða á Íslandi, líkt og snjóflóð, jarðskjálftar og eldgos væru dæmi um. Nefndi hún sérstaklega gosið í Heimaey árið 1973 og langa hrinu jarðskjálfta og eldvirkni á Reykjanesi. Íslendingar hefðu reynt að mæta slíkum hamförum á skapandi hátt og meðal annars tekist að hafa áhrif á hraunflæði í Vestmannaeyjum og nærri Grindavík með kælingu og varnargörðum. Hún sagði ástæðu til að mæta þeim áskorunum sem nú blöstu við alþjóðlega, m.a. á sviði loftlags- og öryggismála, með sama hugarfari. Brýnt væri að löndin tvö styrktu varnargarða sína - áþreifanlega, pólitíska og siðferðilega - á vettvangi norrænnar samvinnu. Borðræðuna í heild sinni er hægt að lesa á vef embættisins.