• Forsetar Finnlands og Íslands ásamt mökum með Mikko Hautala í höfuðstöðvum Nokia.
Fréttir | 08. okt. 2025

Íslensk og finnsk fyrirtæki hittast

Í tilefni af ríkisheimsókn forseta og maka til Finnlands 7.-8. október fór viðskiptasendinefnd með til Helsinki. Um er að ræða 50 fulltrúa frá um 30 fyrirtækjum og stofnunum. Markmið ferðar þeirra er að efla tengsl og samstarf við finnsk fyrirtæki og kynna íslenskt hugvit og fjölbreyttar lausnir á sviði nýsköpunar, tækni og sjálfbærra verkefna.

Meginviðburður ferðarinnar var viðskiptaþing sem Íslandsstofa, Samtök iðnaðarins, Samorka og Business Finnland hafa skipulagt. Þingið fór fram fyrir hádegi í dag í höfuðstöðvum hátæknifyrirtækisins Nokia. Lögð var áhersla á þrjú þemu: tölvuleikjaiðnað, orku og orkuinnviði og loks hátækni með tvíþætt notagildi. Forseti Íslands og forseti Finnlands tóku þátt í hluta af dagskránni. Bæði fluttu þau stutt ávörp og hlýddu síðan á pallborðsumræður íslenskra og finnskra aðila um orkumál og gagnaver.

Í máli forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, kom fram að Finnar og Íslendingar væru í fremstu röð þjóða á viðkomandi sviðum. Hún sagði líka báðar þjóðir vera stórhuga og hafa hugrekki til að þróa nýjar hugmyndir, auk þess sem samskipti þegnanna byggðust á trausti. Hún fjallaði einnig um samtakamátt Norðurlandanna sem saman teldust tíunda stærsta efnahagssvæði heims.

Alexander Stubb, forseti Finnlands, hóf mál sitt á því að rekja hvernig við skiljum eftir okkur stafræn fótspor frá því að við vöknum á morgnanna og þar til við sofnum, auk þess sem margir láta snjalltæki vakta líkamsstarfsemi sína á nóttunni. Hann benti á að misjafnt væri hverjir eignuðust þessi gögn; einkafyrirtæki, ríkisstjórnir eða einstaklingar. Í framhaldi ræddi hann um þörfina á því að sérhvert samfélag stæði vörð um dýrmætar stafrænar upplýsingar sem þessar og kæmi í veg fyrir að þær væru misnotaðar.

Eftir hádegi heimsóttu forsetarnir, fylgdarlið þeirra og viðskiptasendinefndin Aalto-háskólann í Espoo en þar ræddu Alexander Stubb og Halla Tómasdóttir við nemendur um hlutverk leiðtoga á tímum óreiðu í alþjóðakerfinu. 

Hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar um viðskiptaþingið á vef Íslandsstofu.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar