• Finnlandsforseti og maki kveðja íslensku forsetahjónin í anddyri Arkitekta- og hönnunarsafnsins í Helsinki. Ljósmynd: Karl Vilhjálmsson.
  • Alexander Stubb og Halla Tómasdóttir hitta 14 ára bankastarfsmann í skólabúðunum Yrityskylä, JA Finnland. Ljósmynd: Karl Vilhjálmsson.
  • Forsetahjónin ásamt Kai Mykkänen, borgarstjóra Espoo, og eiginkonu hans, Mariu Sokolow Mykkänen. Ljósmynd: Karl Vilhjálmsson.
  • Forsetahjón ásamt Suzanne Innes-Stubb, eiginkonu Finnlandsforseta. Ljósmynd: Karl Vilhjálmsson.
  • Frá gangkvæmnismóttöku í Katajanokan Kasino. Ljósmynd: Karl Vilhjálmsson.
Fréttir | 08. okt. 2025

Síðari dagur ríkisheimsóknar

Á síðari degi ríkisheimsóknar forseta Íslands og maka til Finnlands heimsóttu þau meðal annars Aalto-háskóla í Espoo og Arkitekta- og hönnunarsafnið í Helsinki. Heimsókninni lauk formlega í gærkvöldi með gagnkvæmnismóttöku. Forseti ávarpaði þar gesti og þakkaði finnsku forsetahjónunum og finnsku þjóðinni fyrir einstaka gestrisni og dýrmæta vináttu. 

Dagurinn hófst á því að forsetahjón og fylgdarlið fóru í Hietaniemi-kirkjugarðinn í Helsinki þar sem er þjóðargrafreitur finnsku þjóðarinnar. Forseti lagði þar blómsveiga við minnismerki um fallna hermenn og við gröf Carls Mannerheim hershöfðingja sem var forseti Finnlands á árunum 1944 til 1946. Því næst voru höfuðstöðvar tæknifyrirtækisins Nokia í Espoo skoðaðar en þar tóku forseti Íslands og forseti Finnlands, Alexander Stubb, þátt í dagskrá finnsk-íslensks viðskiptaþings. Í kjölfarið heimsóttu íslensku og finnsku forsetahjónin skólabúðirnar Yrityskylä, JA Finnland þar sem nemendur úr 6. og 9. bekk fá tækifæri til að setja sig í hlutverk ólíkra starfsstétta. Ellefu slíkar skólabúðir eru starfræktar í Finnlandi og taka þær árlega á móti yfir 90% grunnskólabarna í þessum árgöngum. 

Forsetahjónin þáðu því næst hádegisverð í boði borgarstjóra Espoo, Kai Mykkänen. Í samræðum yfir borðum kom fram að Espoo hefði nýlega skilgreint sig sem höfuðborg barna og ungs fólks enda væri rík áhersla þar lögð á að hlúa að yngstu aldurshópunum. Eftir hádegi var fyrst á dagskrá heimsókn í Aalto-háskólann en hann er þekktur fyrir þverfaglegt skólastarf og metnað á sviði tækniþróunar og umhverfismála. Halla Tómasdóttir og Alexander Stubb ræddu þar við unga háskólanema um leiðtogahlutverkið á tímum óvissu. Umræðunum stjórnaði Ilkka Niemela, rektor háskólans.

Síðdegis skoðuðu forsetahjónin Arkitekta- og hönnunarsafnið í Helsinki en þar er m.a. sýning helguð verkum finnska skáldsins Tove Jansson, höfundar sagnanna um Múmínálfana. Einnig voru kynntar fyrir gestunum niðurstöður í samkeppni um nýja byggingu safnsins. Að svo búnu var komið að kveðjustund fyrir forseta Finnlands, Alexander Stubb, en hann var á leið vestur um haf til fundar við Bandaríkjaforseta.

Lokaviðburður ríkisheimsóknarinnar var gagnkvæmnismóttakan sem haldin var á veitingastaðnum Katajanokan Kasinu. Móttökuna sóttu á þriðja hundrað gesta, þar á meðal eiginkona Finnlandsforseta, Suzanne Innes-Stubb, og finnskir og íslenskir þátttakendur af viðskiptaþinginu. Í móttökunni var boðið upp á íslenskar kræsingar, sem feðgarnir Hafliði Halldórsson og Halldór Hafliðason höfðu matreitt, auk þess sem GDRN og Reynir Snær Magnússon skemmtu með tónlistarflutningi.

Í ávarpi sínu rifjaði forseti m.a. upp fyrstu heimsókn sína sem unglingur til Finnlands, á kóramót í Rovaniemi í Lapplandi, og dýrmæt kynni sín og fjölskyldunnar af verkum Tove Jansson. Hún ræddi líka um líf og líðan barna og unglinga og lagði áherslu á að þótt Finnar og Íslendingar hefðu náð góðum árangri á ýmsum sviðum væri brýnt fyrir báðar þjóðir að hlúa enn betur að þessum aldurshópi á tímum snjalltækja og samfélagsmiðla. Ávarpið í heild sinni er hægt að lesa á vef embættisins

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar