• Frá opnun jafnréttisráðstefnunnar. Ljósmynd: RÚV/Björn Malmquist.
  • Frá opnun jafnréttisráðstefnunnar í Peking: Ljósmynd: Xinhua News Agency.
  • Forseti Íslands ásamt Xi Jinping, forseta Kína, Ljósmynd: Xinhua News agency.
Fréttir | 13. okt. 2025

Ekki einhvern tímann, heldur núna

Forseti var meðal þjóðarleiðtoga sem ávörpuðu í morgun alþjóðlega ráðstefnu um jafnréttismál sem fram fer í Peking á vegum kínverskra stjórnvalda og UN Women. Þar er þess minnst að 30 ár eru liðin frá því að samþykkt var þar á fjölmennri kvennaráðstefnu svonefnd Peking-yfirlýsing um aðgerðir í jafnréttismálum. Í ávarpi sínu lagði forseti m.a. áherslu á að þótt merkir áfangar hefðu náðst í kvennabaráttunni á undanförnum áratugum mætti víða um heim greina bakslag. Brýnt væri að styrkja og endurnýja þá framtíðarsýn sem mótuð var á ráðstefnunni í Peking 1995. Niðurlag ávarpsins var svohljóðandi:

„Maó Zedong, formaður, sagði eitt sinn: „Konur halda uppi helmingi himinsins.“ Nú um stundir verðum við að ganga skrefinu lengra og bæta við: Í heimi þar sem ójafnvægi ríkir hafa konur styrk til að lækna, visku til að vísa veginn og hugrekki til að ýta undir þær breytingar sem eru aðkallandi. Við skulum heiðra framtíðarsýn Peking-yfirlýsingarinnar, ekki með orðum einum, heldur með verkum. Ekki einhvern tímann, heldur núna.“

Þátttaka forseta í jafnréttisráðstefnunni er hluti af opinberri heimsókn hennar til Kína sem hófst í gær og stendur fram á föstudag. Meðal annarra  þjóðarleiðtoga sem tóku til máls við opnun ráðstefnunnar voru Xi Jinping forseti Kína, Harini Amarasuriya forseti Sri Lanka, Maria Benvinda Levi forsætisráðherra Mósambík, Sylvanie Burton forseti Dóminíska lýðveldisins og John Dramani Mahama forseti Ghana.

Ávarp forseta í heild sinni er aðgengilegt á vef embættisins.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar