• Halla Tómasdóttir og Xi Jinping. Ljósmynd: Xinhua New Agency.
Fréttir | 14. okt. 2025

Samskipti Íslands og Kína í brennidepli

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, átti fund með Xi Jinping, forseta Kína, í Höll alþýðunnar í Peking í morgun. Fundurinn er hluti af dagskrá opinberrar heimsóknar sem hófst á sunnudag og lýkur á föstudag. Á fundinum var m.a. rætt um stöðu alþjóðamála, græn orkuskipti, jafnréttismál og samskipti og samvinnu ríkjanna tveggja.

Forseti Íslands lagði í máli sínu áherslu á lykilatriði í utanríkisstefnu Íslands, þar á meðal stuðning þjóðarinnar við Úkraínu, mikilvægi þess að friður komist á í Gaza og að unnið sé að tveggja ríkja lausn sem tryggi sjálfstæði Palestínu. Hún ræddi einnig afdráttarlausan stuðning Íslands við varðveislu og eflingu mannréttinda. 

Í tengslum við fundinn í morgun sendu ríkisstjórnir beggja landa frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem lögð er áhersla á enn frekara samstarf á sviði jarðvarma sem lið í að sporna við loftslagsbreytingum. Einnig var undirritaður nýr tvíhliða samningur sem auðveldar útflutning á fiskeldisafurðum frá Íslandi til Kína.

Fundurinn í Höll alþýðunnar var hálftíma langur. Þorbjörg Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sat einnig fundinn af hálfu Íslands, ásamt Þóri Ibsen sendiherra og fjórum íslenskum embættismönnum. Athygli vakti að íslenska sendinefndin væri, að Þóri frátöldum, eingöngu skipuð konum.

 

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar