Á fimmta degi opinberrar heimsóknar sinnar til Kína flutti forseti opnunarávarp alþjóðlegrar viðskiptaráðstefnu, „ESG Global Leaders Conference", þar sem fjallað var um samfélagsábyrgð í fyrirtækjarekstri. Ráðstefnan fer fram í Shanghai en þangað kom forseti síðdegis í gær eftir þriggja daga dvöl í Peking. Meðal annarra liða á dagskrá forseta í Shanghai í dag og á morgun eru heimsókn í Yuan-garðinn, samræður við nemendur í CEIBS-viðskiptaháskólanum og tónleikar með íslenskri samtímatónlist í Fudan-háskóla.
Ráðstefnan sem forseti ávarpaði í morgun var haldin undir kjörorðunum: „Tökum höndum saman andspænis áskorunum: Alþjóðlegt samstarf, nýsköpun og sjálfbær vöxtur." Forseti lagði áherslu á að gott viðskiptalíf væri viðskiptalíf sem léti gott af sér leiða, útrýmdi fátækt, ýtti undir nýsköpun og inngildingu og stuðlaði að friði og farsæld. Hún sagði jarðarbúa standa frammi fyrir stórum og flóknum áskorunum sem ekki yrðu leystar án ábyrgrar þátttöku viðskiptalífsins.
„Kínverska táknið fyrir „kreppu" felur bæði í sér tilvísun til hættu og tækifæra. Það á vel við um þær krossgötur sem við stöndum á," sagði forseti meðal annars og tók dæmi af norrænum fyrirtækjum sem hefðu brugðist við áskorunum í loftlagsmálum af ábyrgð og festu. „Ég vona að við séum nógu skynsöm til að taka langtímasjónarmið fram yfir skammtímahagnað, sýna hugrekki í stað þess að fljóta með straumnum. Og ég vona að við öll, stærri og smærri þjóðir, getum mótað saman framtíð þar sem viðskiptalífið starfar í þágu mannkynsins alls og sameiginlegra heimkynna okkar," sagði hún að lokum.
Þess má geta að „umhverfislegir og félagslegir þættir og stjórnarhættir" (UFS) er íslensk þýðing á enska orðasambandinu Environmental, Social and Governance (ESG). Það vísar til alþjóðlegra viðmiða sem eru notuð til að meta ábyrgar fjárfestingar. Hugað er að umhverfisáhrifum starfseminnar, því hvernig fyrirtæki kemur fram við starfsfólk, viðskiptavini og nærsamfélagið og hvort stjórnarhættir séu til fyrirmyndar. Forseti vísaði til þessara viðmiða í ávarpi sínu og hvatti leiðtoga í viðskiptalífi til að leggja þau til grundvallar ákvörðunum sínum og við stefnumótun.
Unnt er að lesa ávarpið í heild sinni á vef embættisins.