• Forseti í samtali við Dominique Turpin. Ljósmynd: Sendiráð Íslands í Peking.
  • Frá tónleikum Kammersveitar Hong Kong. Ljósmynd: Íslenska sendiráðið í Peking.
Fréttir | 17. okt. 2025

Lokadagur heimsóknar til Kína

Á sjötta og síðasta degi opinberrar heimsóknar sinnar til Kína ræddi forseti m.a. við nemendur í alþjóðlegum viðskiptaháskóla í Shanghai, heimsótti Norræna setrið í við Fudan-háskóla og sótti tónleika kammersveitar frá Hong Kong. Á efnisskránni voru verk eftir íslensk samtímatónskáld.

Eftir að hafa flutt ávarp á alþjóðlegri viðskiptaráðstefnu, „ESG Global Leaders Conference", í Huangpu-hverfinu í Shanghai í gærmorgun heimsótti forseti kynningarbás íslenskra fyrirtækja á ráðstefnunni. Síðdegis skoðaði hún ásamt fylgdarliði hina rómuðu Yuyuan-garða sem farið var að rækta fyrir hátt í 500 árum síðan. Þar má finna fágæta steina, gamlar byggingar og fallegan gróður en þar er einnig starfræktur markaður sem hefur mikið aðdráttarafl.

Fyrsti viðkomustaður forseta í morgun var China Europe International Business School (CEIBS) sem kínversk yfirvöld og Evrópusambandið stofnuðu árið 1994. Skólinn er með starfsemi í þremur kínverskum borgum og einnig í Sviss og Ghana. Forseti tók þar þátt í samræðum við Dominique Turpin, annan af tveimur rektorum skólans, og svaraði einnig spurningum nemenda. Forseti sat síðan hádegisverð í boði borgaryfirvalda í Shanghai og í kjölfarið fundaði hún með ræðismanni Íslands í Hong Kong, Henry Chan.

Deginum lauk á heimsókn forseta í Fudan-háskóla. Meðal viðkomustaða var Norræna setrið sem fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir. Að því standa, ásamt Fudan og tveimur öðrum kínverskum háskólum, um tuttugu norrænar háskólastofnanir, þar á meðal Háskóli Íslands. Dagskránni lauk með tónleikum kammersveitar Hong Kong-borgar í tónleikasal Fudan-háskóla. Flutt voru verk eftir Eydísi Evensen, Jóhann Jóhannsson, Atla Örvarsson, Hildi Guðnadóttur, Ólaf Arnalds, Gabríel Ólafs, Viktor Örn Árnason og Herdísi Stefánsdóttur.

Forseti flýgur frá Shanghai til London laust eftir miðnætti í kvöld (á staðartíma) og er væntanleg til Ísland á morgun.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar