„Ég mun taka mér frí 24. október og standa með systrum mínum og bræðrum gegn ofbeldi og með friði og framförum sem byggjast á jafnrétti fyrir alla.“ Þetta voru lokaorð blaðagreinar forseta sem birtist í gær í tilefni af Kvennafrídeginum 2025 sem er í dag. Þess er meðal annars minnst að 50 ár eru liðin frá fyrsta Kvennafrídeginum 24. október 1975.
Í gær flutti forseti ávarp á viðburði í Bíó Paradís þar sem sjónvarpsmyndin Takk Vigdís var frumsýnd. Í myndinni ræðir Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir við fjölskyldu, vini og samstarfsfólk frú Vigdísar Finnbogadóttur, um forsetatíð hennar 1980 til 1996. Myndin er á dagskrá RÚV í kvöld.
Einnig var sýnd í Bíó Paradís heimildamyndin Dagurinn sem Ísland stöðvaðist (The Day Iceland Stood Still) eftir Pamelu Hogan og Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Við það tækifæri voru einnig sýnd stutt myndbönd með heillaóskum sem hafa borist forsetaembættinu frá kvenleiðtogum fjögurra landa í jafnmörgum heimsálfum í tilefni dagsins. Kveðjurnar senda fr. Lucia Witbooi varaforseti Namibíu, fr. Mary Simon landstjóri Kanada, fr. Sandra Mason forseti Barbados og fr. Vjosa Osmani forseti Kósovó.
Eftir hádegi í dag eru svalir á Staðastað, skrifstofu embættisins við Sóleyjargötu, hluti af sviðsmynd Sögugöngu Kvennaársins 2025. Kristrún Kolbrúnardóttir leikkona bregður sér þar í hlutverk frú Vigdísar Finnbogadóttur.