• Forseti og Pamela Hogan í viðtali við Christiane Amanpour á CNN.
Fréttir | 27. okt. 2025

Kvennafrídagurinn vekur athygli

Kvennafrídagurinn 2025 vakti alþjóðlega athygli og var til umfjöllunar í mörgum erlendum fjölmiðlum í liðinni viku. Meðal þeirra sem ræddu við forseta af þessu tilefni voru CNN, ARD og The Guardian.

Christiane Amanpour tók viðtal við forseta og Pamelu Hogan fyrir bandarísku sjónvarpsstöðina CNN. Þær ræddu meðal annars um heimildamynd Hogan og Hrafnhildar Gunnarsdóttur, Dagurinn sem Ísland stöðvaðist (The Day Iceland Stood Still). Forseti rifjaði upp í viðtalinu minningar sínar frá 24. október 1975 þegar hún var sjö ára gömul og ræddi líka um hve mikilvæg kosning frú Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands 1980 hefði verið sér og sinni kynslóð.

Þýska sjónvarpsstöðin ARD var með ítarlega fréttaskýringu um Kvennafrídaginn þar sem rætt var við íslenskar konur á ýmsum aldri. Forseti benti þar á að aðrar þjóðir gætu dregið lærdóm af þeim árangri sem Ísland hefði náð í jafnréttismálum á undanförnum 50 árum. Í viðtali við breska dagblaðið The Guardian lagði forseti m.a. áherslu á að þótt góður árangur hefði náðst hérlendis í jafnréttisbaráttunni mætti greina bakslag í þessum málaflokki víða um heim. Kynbundið ofbeldi væri vandamál sem Íslendingum gengi illa að vinna bug á, eins og fleiri þjóðum. Hún sagði einnig mikilvægt að ná betra jafnvægi milli kynjanna á ýmsum sviðum samfélagsins.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar