Forseti tók þátt í málþinginu „Lykill að líðan barna og unglinga" sem fram fór á sal Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Að þinginu stóð Epsilondeild Delta Kappa Gamma á Íslandi en DKG eru alþjóðleg samtök kvenna í fræðslustörfum. Meðal annarra sem tóku til máls voru Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri og Ellert Geir Ingvason, varðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi. Fulltrúar ungmenna í umræðunum voru Hera Fönn Lárusdóttir, nemandi í 9. bekk í Grunnskólanum í Hveragerði, og Sigurður Ernir Eiðsson, nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Markmið málþingsins var að skapa vettvang fyrir fjölbreytta umræðu um áskoranir sem ungt fólk glímir við, einkum á sviði andlegrar heilsu. Ellert Geir fjallaði meðal annars um verkefni samfélagslögreglunnar á Suðurlandi en Sigrún ræddi um úrræði sem unglingum, sem hafa orðið fyrir áföllum, stæðu til boða. Hera Fönn og Sigurður Ernir lögðu fram sínar hugmyndir um hvernig best væri að tryggja velferð yngri kynslóða. Þá ræddi séra Sigríður Munda Jónsdóttir, sóknarprestur í Þorlákshöfn, við forseta um hreyfinguna Riddara kærleikans og verkefnið Símafrið. Í lokin voru pallborðsumræður og var meðal annars rætt um leiðir til að vernda börn og ungmenni fyrir áreiti samfélagsmiðla og snjalltækja.