Forseti, sem er verndari skátahreyfingarinnar, sæmdi 26 rekkaskáta forsetamerkinu. Athöfnin, sem á sér 60 ára sögu, fer jafnan fram í Bessastaðakirkju en vegna viðgerða á henni voru merkin afhent í móttökusal Bessastaða.
Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingarinnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Að baki liggur tveggja til þriggja ára vinna rekkaskáta (sem eru skátar á aldrinum 16 til 18 ára) við 24 verkefni. Fríða Björg Tómasdóttir og Kristófer Njálsson ávörpuðu samkomuna og lýstu reynslu sinni af þessari vegferð. Fríða Björg sagði þar meðal annars:
„Ég hef oft verið spurð hvað það er eiginlega sem við gerum í skátunum. Fólk virðist halda að við séum að kveikja eld og hnýta hnúta alla fundi en öll hér inni vitum við að skátastarfið er svo miklu meira en það. Skátahreyfingin er eina æskulýðshreyfingin, svo ég best viti, sem er með eitt inntökuskilyrði: Að leggja sitt af mörkum til þess að bæta samfélagið. Þótt við kveikjum vissulega marga elda þá áttar maður sig á því að skátastarfið snýst ekki bara um eldinn sjálfan, heldur um það að kveikja eld innra með sér og öðrum. Að verða forvitin, þrautseig, opin fyrir ævintýrum og tilbúin að takast á við áskoranir. Núna, þegar ég stend hér í dag, finnst mér eins og þessi eldur logi aðeins skærar.“
Þess má geta að þetta er fjölmennasti hópur rekkaskáta sem tekur við forsetamerkinu síðan árið 2016. Hugvekja þeirra Fríðu Bjargar og Kristófers er aðgengileg á vef skátahreyfingarinnar.