Forsetahjón tóku á móti íslenska landsliðinu í hestaíþróttum á Bessastöðum. Tilefnið var árangur liðsins á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fór fram í Sviss í byrjun ágúst. Samtals hlaut hópurinn þrettán gullverðlaun, tíu silfurverðlaun og tvö brons, sem og hinn eftirsótta liðabikar á mótinu.
Forseti ávarpaði gestina, óskaði þeim til hamingju með frábær afrek sem bæru vott um sterka liðsheild. Einnig vakti hún athygli á því að íslenski hesturinn væri dýrmætur sendiherra landsins erlendis.