Þriggja daga vinnuferð forseta Íslands til Bretlands lýkur nú síðdegis. Á fyrsta degi, miðvikudaginn 19. nóvember, heimsótti hún miðstöðina Sustainable Ventures við Belvedere Road í Lundúnum og kynnti sér starfsemi hennar. Miðstöðin styður við sprotafyrirtæki sem vinna að sjálfbærni og loftslagslausnum. Um kvöldið var hún viðstödd móttöku í sendiráði Íslands í boði Sturlu Sigurjónssonar sendiherra.
Fyrir hádegi á fimmtudag tók forseti þátt í viðburði í King's College London og átti í kjölfarið fund með Karli 3. Bretakonungi í Buckingham-höll. Meðal umræðuefna þeirra var staða alþjóðamála, jarðvarmi og heilsa hafsins. Síðdegis tók hún ásamt Costas Markides, prófessor í stefnumótun og nýsköpun, þátt í viðburði í London Business School. Þau ræddu saman um velsældarhagkerfi og áherslur leiðtoga á umbrotatímum en svöruðu einnig spurningum úr sal.
Fyrr í dag heimsótti forseti útibú verslunar 66°Norður við Regent Street í Lundúnum. Síðasti liður á dagskránni er heimsókn á veitingastaðinn Churchill's Fish & Chips í Uxbridge. Churchill's-keðjan hefur haft hráefni af Íslandsmiðum á matseðli sínum frá árinu 1981 en þá samdi breska fyrirtækið í fyrsta sinn við útgerð skuttogarans Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 um kaup á þorski og ýsu.