• Frá Hátíð brautskráðra doktora í Hátíðasal Háskóla Íslands. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.
  • Frá móttöku sem efnt var til á Bessastöðum til heiðurs háskólasamfélaginu. Ljósmynd: EFÍ.
Fréttir | 01. des. 2025

Hátíðlegur fullveldisdagur

Á fullveldisdaginn tók forseti þátt í Hátíð brautskráðra doktora sem fram fór í Háskóla Íslands. Einnig bauð hún fulltrúum háskólasamfélagsins hérlendis til móttöku á Bessastöðum síðar sama dag.

Hátíð brautskráðra doktora er árviss viðburður sem Háskóli Íslands efndi nú til í fjórtánda skipti. Nýdoktorarnir sem boðnir voru á hátíðina að þessu sinni hafa lokið doktorsprófi frá skólanum á undanförnum tólf mánuðum. Þeir koma af öllum fimm fræðasviðum skólans og eru í hópnum 30 karlar og 59 konur. 

Í stuttu ávarpi sem forseti flutti á hátíðinni hvatti hún doktorana nýju til að vera brúarsmiðir, í víðtækustu merkingu þess orðs. „Leggið kapp á að miðla rannsóknum ykkar sem oftast og til sem flestra og verið sjálf forvitin um það sem önnur eru að fást við. Óvæntustu og jafnvel merkustu uppgötvanir eru oft gerðar þegar fólk af ólíkum fræðasviðum vinnur saman að því að dýpka þekkingu okkar og bæta heiminn,“ sagði forseti meðal annars.

Til móttökunnar á Bessastöðum var boðið fulltrúum þeirra háskólastofnana sem starfræktar eru hérlendis, sem og fulltrúum nemenda. Forseti ávarpaði hópinn og ræddi meðal annars um þær áskoranir sem framfarir á sviði gervigreindar hefðu í för með sér fyrir menntakerfið og samfélagið allt.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar