Forseti afhenti Hvatningarverðlaun ÖBÍ réttindasamtaka á Hótel Reykjavík Grand, en þau eru veitt árlega á alþjóðadegi fatlaðs fólks. Magnús Orri Arnarson kvikmynda- og þáttagerðarmaður hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir einstakt framlag á sviði vitundarvakningar, kvikmyndagerðar og íþrótta.
Magnús Orri hefur nýlega lokið við heimildamyndina „Sigur fyrir sjálfsmyndina“ þar sem keppendum á heimsleikum Special Olympics á Ítalíu 2025 er fylgt eftir. Hann á sjálfur að baki feril á Special Olympics og hefur einnig verið í hópi umsjónarfólks sjónvarpsþáttaraðarinnar „Með okkar augum“. „Ég er ofboðslega þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið. Takk fyrir fatlað fólk. Við getum gert allt sem við viljum,“ sagði Magnús Orri meðal annars þegar hann tók við hvatningarverðlaununum. Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn úr myndinni.
Aðrir sem hlutu tilnefningu til Hvatningarverðlauna ÖBÍ að þessu sinni og forseti afhenti viðurkenningar eru Hákon Atli Bjarkason fyrir að vera frábær fyrirmynd og stuðla að inngildingu ungs fatlaðs íþróttafólks, Listvinnzlan fyrir brautryðjendastarf á sviði listsköpunar fatlaðs fólks og fyrir fjölgun atvinnutækifæra og Sigurður Hólmar Jóhannesson fyrir að lyfta grettistaki í málaflokki fatlaðra barna og barna með sjaldgæfa sjúkdóma.