• Forseti ásamt fulltrúum af Barnaþingi og starfsfólki á skrifstofu Umboðsmanns barna. Ljósmynd: EFÍ.
Fréttir | 04. des. 2025

Tölum meira saman

Forseti tók á móti tólf fulltrúum Barnaþings 2025 sem skrifstofa umboðsmanns barna efndi til 20. og 21. nóvember. Þingfulltrúarnir færðu forseta „Símasáttmála barna“ sem samþykktur var á þinginu.

Barnaþing var nú haldið í fjórða skipti og fengu 350 börn á aldrinum 11 til 15 ára boð um að sækja það. Börnin voru valin með slembivali úr Þjóðskrá en um 130 börn skráðu sig til leiks. Markmið þingsins er að efla lýðræðislega þátttöku barna og virkja þau í umræðu um málefni sem snerta þau. Athygli beindist að réttindum og líðan barna og höfðu þinggestir tækifæri til að tjá skoðanir sínar og eiga samtal við fullorðna um ýmis viðfangsefni. 

Á þinginu voru mótaðar tillögur um hvernig Ísland gæti orðið betra samfélag fyrir börn og er „Símasáttmáli barna“ hluti af afrakstri þeirrar vinnu. Sáttmálinn er svohljóðandi:

  • Foreldrar eiga að vera góðar fyrirmyndir.
  • Engir símar við matarborðið.
  • Skýrar reglur um notkun síma í skólum.
  • 15 ára aldurstakmark á samfélagsmiðla.
  • Tölum meira saman og verum minna í símanum.
  • Komum vel fram við aðra í samskiptum á netinu.
  • Verum meðvituð um öruggi okkar og annarra á netinu.

Forseti þakkaði þingfulltrúum fyrir gott starf og ræddi við hópinn um símasiði, áhrif gervigreindar á nám og mikilvægi félagslegra tengsla.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar