Forseti heimsótti Litla Hraun ásamt sjálfboðaliðum frá Bataakademíunni og Afstöðu. Kynnt var fjölþætt starfsemi þessara félaga í þágu fanga en viðburðurinn var fyrst og fremst hugsaður sem uppbyggileg afþreying fyrir heimamenn og starfsfólk sem áhuga hafði á þátttöku. Forseti ávarpaði samkomuna, tók þátt í öndunaræfingum og djúpslökun og snæddi loks hádegisverð með hópnum.
Bataakademían á rætur að rekja til sjálfboðastarfs sem listamaðurinn Tolli Morthens hefur leitt ásamt félögum sínum í fangelsum landsins síðastliðin 20 ár. Í upphafi byggði starfið á 12 spora fræðunum en akademían hefur að auki staðið fyrir kennslu í núvitundarhugleiðslu. Meðal markmiða félagsins Afstöðu, sem einnig á sér 20 ára sögu, er að fjölga tækifærum fyrir fanga til endurreisnar, búa þeim skilyrði til farsællar endurkomu út í samfélagið og styðja við aðstandendur þeirra.