Forseti flutti ávarp á útskriftarhátíð nemenda hjá Hringsjá í Reykjavík. Alls útskrifaðist 21 nemandi eftir þriggja anna nám. Flestir þesssara nemenda hafa þegar skipulagt áframhaldandi nám eða atvinnuþátttöku.
Hringsjá er náms- og starfsendurhæfing, ætluð einstaklingum 18 ára og eldri sem hafa verið frá vinnumarkaði eða námi vegna slysa, veikinda, félagslegra erfiðleika eða annarra áfalla. Markmiðið námsins er að einstaklingar fari út á vinnumarkað eða í frekara nám eftir endurhæfingu hjá Hringsjá.
Í hátíðarávarpi sínu við útskriftina óskaði forseti nemendum, aðstandendum og kennurum til hamingju með daginn og hvatti nemendahópinni til frekari dáða: „Verið áfram forvitin og móttækileg fyrir nýrri þekkingu. Lífið sjálft gefur manni margvísleg tækifæri til að þroskast og vaxa. Nýtið þessi tækifæri. En miðlið líka eigin þekkingu og reynslu áfram, verið leiðbeinendur annarra, ekki síst þeirra sem þurfa á hvatningu og stuðningi að halda til að sækja á brattann. Þið eruð nú þegar öðrum fyrirmynd, lifandi dæmi þess að allt er hægt ef til staðar er lærdómsvilji, seigla og trú á eigin getu, og styðjandi lærdómssamfélag eins og Hringsjá sannarlega er.“