Forseti flutti ávarp í árlegu verðlaunahófi Samtaka íþróttafréttamanna (SÍ) og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sem fram fór í Hörpu. Í hófinu var tilkynnt um úrslit í kjöri SÍ um Íþróttamann ársins 2025. Eygló Fanndal Sturludóttir, afreksíþróttakona í ólympískum lyftingum, hlaut nafnbótina að þessu sinni. Þjálfari ársins var valinn Ágúst Þór Jóhannsson hjá kvennaliði Vals í handknattleik en það var jafnframt valið lið ársins.
Í ávarpi sínu ræddi forseti um gildi íþrótta fyrir samfélagið og mikilvægi samvinnu til að árangur næðist. „Fátt er betur til þess fallið að tengja okkur Íslendinga saman þvert á aldur, kyn, landshluta og bakgrunn en keppni fulltrúa okkar heima og heiman,“ sagði forseti meðal annars og bætti seinna við: „Bakvið þann árangur sem hver og einn hefur náð er barn sem fékk að takast á við áskoranir, barn sem fékk hvatningu og rými til að hreyfa sig og þroskast. Bakvið hvern titil stendur hópur fólks, fámennur eða fjölmennur eftir atvikum, sem hafði trú á þessu barni og styrkti trú þess á eigin getu. Þetta er það sem við viljum að öll börn eigi kost á – ekki bara þau sem ná á toppinn. Við viljum sjá þau öll mæta brosandi á æfingar, hafa hugrekki til að njóta útiveru í öllum veðrum, hispursleysi til að stíga dans í augsýn annarra, lífsorku til að taka heilshugar þátt í hverskonar leik og sköpun.“
Ávarp forseta er aðgengilegt í heild hér á vef embættisins.