Forseti afhenti Íslensku bjartsýnisverðlaunin við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Verðlaunin hlaut Hildur Knútsdóttir rithöfundur. Í ávarpi sínu við afhendinguna lagði forseti áherslu á að bjartsýni væri meðvituð afstaða til framtíðarinnar og því drifkraftur framfara, samvinnu og nýrra lausna.
Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari þessara verðlauna, sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Þau eru í senn viðurkenning og hvatning til íslensks listamanns sem með list sinni hefur stuðlað að bjartsýnu lífsviðhorfi. Stofnað var til verðlaunanna í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur af Peter Brøste hjá Brøste A/S í Kaupmannahöfn. Frá árinu 2000 hefur Álverið í Straumsvík verið bakhjarl verðlaunanna og fá verðlaunahafar áletraðan grip úr áli og eina og hálfa milljón króna í verðlaunafé.
Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars um framlag Hildar Knútsdóttur til íslenskrar menningar: "Á tímum þar sem lestur barna og ungmenna á í vök að verjast hefur verðlaunahafinn okkar lagt umtalsvert af mörkum og fer iðulega ótroðnar slóðir í verkum sínum. Hún er fjölhæf, hugmyndarík og afkastamikil og skrifar bæði fyrir börn og fullorðna. Það er von okkar að Bjartsýnisverðlaunin verði hvatning til hennar um að halda áfram á sömu braut, að halda áfram að skrifa áhugaverðar, heillandi og frumlegar sögur fyrir okkar mikilvægustu lesendur."
Unnt er að sjá lista yfir fyrri verðlaunahafa hér.