Opinber heimsókn forsetahjóna til Vestmannaeyja hófst síðdegis í gær. Fulltrúar bæjarstjórnar tóku á móti þeim á Vestmannaeyjaflugvelli en þaðan var ekið í byggðasafn bæjarins, Sagnheima, þar sem bæjarbúum var boðið að taka þátt í opnu húsi. Forsetahjón og fylgdarlið sátu síðan kvöldverð í boði bæjarstjórnar í Eldheimum sem er safn til minningar um eldgos í Vestmannaeyjum.
Forsetahjón lentu á Heimaey um klukkan 16.30 en þar tóku meðal annars á móti þeim þau Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar, Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs og Drífa Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarins. Tveir fulltrúar yngri kynslóðarinnar afhentu forseta blóm auk þess sem nemandi og kennari úr Tónlistarskóla Vestmannaeyja léku hið þekkta lag Gísla Helgasonar Kvöldsigling (Bátur líður út um eyjasund).
Dagskráin í Sagnheimum hófst á því að Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, bauð gesti velkomna en síðan sungu börn af leikskólanum Sóla tvö lög. Þessu næst flutti forseti ávarp og færði bæjarbúum að gjöf ljósmynd sem tekin var árið 1986 þegar dönsku konungshjónin voru í opinberri heimsókn á Íslandi í boði frú Vigdísar Finnbogadóttur. Myndin sýnir Margréti Þórhildi Danadrottningu, Hinrik prins og frú Vigdísi skoða Eldfell á Heimaey undir leiðsögn Páls Zóphóníassonar. Íris Róbertsdóttir ávarpaði næst samkomuna og færði forsetahjónum góðar gjafir. Dagskránni lauk á tónlistarflutningi nemanda og kennara úr Tónlistarskóla Vestmannaeyja.
Í dag munu forsetahjón heimsækja skóla, menningarstofnanir og fyrirtæki í Eyjum og taka þátt í árlegri Þrettándagleði bæjarbúa.