Á öðrum degi opinberrar heimsóknar forseta til Vestmannaeyja heimsóttu þau meðal annars leikskóla, grunnskóla og framhaldsskólann í bænum. Um hádegið sátu þau síðan hádegisverðarafund í boði bæjarstjórnar í Ráðhúsinu.
Dagskráin í dag hófst klukkan 9 á heimsókn í leikskólann Kirkjugerði. Úti á skólalóðinni tók Eyja Bryngeirsdóttir skólastjóri og börn í grímubúningum á móti forsetahjónum og fylgdarliði. Gengið var þessu næst um skólahúsið og var starfsemin kynnt fyrir gestum, þar með talið leiðir sem miða að því að auka lýðræði í skólastarfinu. Heimsókninni lauk á því að börn af elstu deildinni sungu tvö lög.
Næst var farið í Framhaldsskóla Vestmannaeyja sem hefur á undanförnum árum markað sér sterka stöðu í kennslu málm- og vélstjórnargreina. Þar tók Helga Kristín Kolbeins skólameistari á móti forseta sem ávarpaði nemendur á sal og ræddi þar meðal annars um verkefnið ,,Riddarar kærleikans”. Í kjölfarið fór fram kynning á verknáminu í skólanum sem hlaut nýlega Íslensku menntaverðlaunin.
Laust fyrir hádegi heimsóttu forsetahjón síðan Grunnskóla Vestmannaeyja - Barnaskólann á Skólavegi. Einar Gunnarsson og Anna Rós Hallgrímsdóttir skólastjórar í Grunnskólum Vestmannaeyja tóku á móti forsetahjónum og fylgdarliði framan við skólann en þar höfðu nemendur með fána einnig raðað sér upp. Þegar inn var komið kynnti Anna Rós verðlaunaverkefnið ,,Kveikjum neistann” sem hefur mótað skólastarfið í yngri bekkjardeildunum á liðnum árum og vakið verðskuldaða athygli. Að því loknu var fimmti bekkur heimsóttur en hann hefur verið að vinna að áhugaverðu verkefni sem tengist sögu forsetaembættisins.
Í hádeginu var forsetahjónum og fylgdarliði boðið til hádegisverðarfundar í Ráðhúsi Vestmannaeyjabæjar ásamt bæjarstjórn og bæjarritara. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri kynnti helstu áherslur og áskoranir í rekstri bæjarins en eftir það var almenn umræða um framtíðarsýn bæjarstjórnar.