• Forsetahjón og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri ásamt Birni Brimari Hákonarsyni og Eyþóri Harðssyni í frystihúsi Ísfélagsins. Ljósmynd: Bjarni Þór Georgsson.
  • Kári Bjarnason forstöðumaður Bókasafn Vestmannaeyja kynnir forsetahjónum Fágætisafnið. Ljósmynd: Bjarni Þór Georgsson.
  • Forsetahjón og fylgdarlið skoða kertagerð í vinnu- og hæfingarstöðinni Heimaey. Ljósmynd: Bjarni Þór Georgsson.
  • Maki forseta, Björn Skúlason, heilsar upp á heldri borgara í dagdvölinni Bjarginu. Ljósmynd: Bjarni Þór Georgsson.
  • Forseti ásamt frumkvöðlinum Sigurjóni Óskarssyni í höfuðstöðvum Laxeyjar. Ljósmynd: Bjarni Þór Georgsson.
  • Forsetahjón í Þrettándagöngu ÍBV. Ljósmynd: Bjarni Þór Georgsson.
Fréttir | 10. jan. 2026

Nýsköpunarsamfélag í fremstu röð

Opinberri heimsókn forsetahjóna til Vestmannaeyja lauk á föstudagskvöld. Meðal viðkomustaða á þessum seinni degi heimsóknarinnar voru þrír skólar, sem fjallað var um í sérstakri frétt hér á vefnum, og einnig ýmis fyrirtæki og stofnanir. Þá hitti forseti eldri og yngri frumkvöðla að máli. Í för með forsetahjónum voru m.a. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar og Drífa Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarins.

Heimsóknin hófst síðdegis á fimmtudaginn með opnu húsi. Þar flutti forseti ávarp þar sem hún ræddi meðal annars um eldgosið í Eyjum 1973 og hve fljótt og vel Eyjamönnum hefði tekist að ná sér á strik að því loknu. „Hér hefur öflugt atvinnulíf blómstrað að nýju, framsækin útgerð og vinnsla, og hér starfar hugsjónafólk og frumkvöðlar sem hafa sýnt að sjálfsvirðing og staðarstolt eru dýrmætur höfuðstóll. Ótal Eyjamenn hafa látið til sín taka á landsvísu og alþjóðavettvangi, og þannig sýnt hvers virði það er þegar hæfileikar fá að njóta sín og grundvöllurinn er traustur.“ Hægt er að lesa ávarpið í heild hér á vef embættisins.

Meðal fyrirtækja sem forsetahjón og fylgdarlið heimsóttu síðdegis á föstudeginum var frystihús Ísfélags Vestmannaeyja sem er elsta starfandi hlutafélag landsins. Eyþór Harðarson útgerðarstjóri og Björn Brimar Hákonarson framleiðslustjóri leiddu gesti um sali hússins og útskýrðu vinnsluferlið sem er að mestu leyti sjálfvirkt. Hópurinn heimsótti einnig eitt af yngstu fyrirtækjunum í Eyjum, Laxey, sem er að þróa landeldi með áherslu á sjálfbæra framleiðslu á Atlantshafslaxi. Það hefur byggt upp á skömmum tíma seiðaeldi í smærri eldiskerjum í nýrri og glæsilegri byggingu á Strandvegi og er að byggja upp stærri eldisker fyrir fullvaxinn fisk í Viðlagafjöru. Sigurjón Ólafsson, einn af stofnendum fyrirtækisins, Daði Pálsson framkvæmdastjóri og Óskar Jósúason upplýsingafulltrúi tóku á móti forseta og fylgdarliði í höfuðstöðvunum á Strandvegi, leiddu gesti um húsið og sögðu frá metnaðarfullum framtíðaráformum Laxeyjar.

Þriðji viðkomustaðurinn síðdegis á föstudag var Þekkingarsetur Vestmannaeyja þar sem fjölmargar stofnanir og fyrirtæki hafa starfsaðstöðu. Hörður Baldvinsson framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins og Tryggvi Hjaltason formaður stjórnar tóku á móti gestunum og kynntu starfsemina. Lögðu þeir ríka áherslu á að menntun og rannsóknir væru grundvöllur framsækinnar atvinnustarfsemi í Eyjum. Forsetahjón hittu ýmsa starfsmenn Þekkingarsetursins að máli, þar á meðal Minnu Björk Ágústsdóttur framkvæmdastjóra fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarinnar Visku. Einnig tók Frosti Gíslason, framkvæmdastjóri Fab Lab Vestmannaeyjar, á móti hópnum í sal þar sem ungir frumkvöðlar hafa starfsaðstöðu og fá þjálfun í notkun á tölvubúnaði. Þrír fulltrúar unglinganna kynntu áhugavert verkefni sem snýst um að þrívíddarprenta öll þau hús sem fóru undir hraun í gosinu 1973. Loks heilsuðu forsetahjón upp á mjaldrana Litlu Grá og Litlu Hvít sem eru í innilaug Þekkingarsetursins á vegum alþjóðasamtakanna Sea Life Trust. Mjaldrarnir eru meðal annars að aðstoða rannsakendur við að þróa frumgerð af merki sem verður notað til að safna upplýsingum um villta stofna náhvala og hegðun þeirra.

Meðal annarra viðkomustaða í gær voru vinnu- og hæfingarstöðin Heimaey þar sem þjónustuhafar tóku lagið með gestum, Fágætissafnið og Bókasafnið í Safnahúsinu sem hýsir einstaka dýrgripi, Týsheimilið á Hamarsvegi þar sem sjálfboðaliðar Þrettándagleðinnar voru að fá sér hressingu og dagdvölin Bjargið sem er stuðningsúrræði við heldri borgara sem búa í heimahúsum í Eyjum. Um kvöldið tóku forsetahjón loks þátt í Þrettándagöngu ÍBV. Gengið var í fylgd trölla og jólasveina sem leið liggur frá Hánni að malarvellinum við Löngulág þar sem bálköstur var tendraður.

 

 

 

 

 

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar