Á Framadögum í Háskólanum í Reykjavík (HR) í liðinni viku hitti forseti tvo nemendur skólans, þær Dönu Zaher El Deen og Diönu Al Barouki. Þær þökkuðu forseta fyrir hvetjandi ummæli sem hún lét falla í hátíðarávarpi sínu 17. júní 2025.
Forsagan er sú að við útskrift frá Fjölbrautarskólanum í Ármúla á liðnu vori voru þrjár vinkonur verðlaunaðar fyrir framúrskarandi námsárangur. Þær eiga það sameiginlegt að tala íslensku sem annað mál. Auk þeirra Dönu og Diönu, sem fluttu til Íslands frá Sýrlandi 2022, var um að ræða Ngan Kieu Tran sem kom hingað frá Víetnam þetta sama ár. Í umfjöllun Morgunblaðsins um námsárangur þeirra sagði meðal annars:
„Ngan var dúx skólans með meðaleinkunnina 9,82 og fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í íslensku, stærðfræði, spænsku, ensku og raungreinum. Diana var semidúx með meðaleinkunnina 9,38 og fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í íslensku, spænsku og félagsgreinum. Dana var með meðaleinkunnina 9,18 og fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í íslensku, spænsku og listgreinum. Diana spilaði á fiðlu í útskriftarathöfninni og var með ávarp fyrir hönd útskriftarnema ásamt Dönu og Ngan.“ Í fréttinni kom einnig fram að vinkonurnar þrjár stefndu allar á nám í HR; Diana í tölvunarfræði, Dana í lögfræði og Ngan í heilbrigðisverkfræði.
Í ávarpi sínu á Austurvelli á þjóðhátíðardeginum lagði forseti meðal annars áherslu á mikilvægi samtals og samskipta. Hún bætti síðan við: „Við þurfum að taka okkur tíma til að horfast í augu við hvert annað, leggja símann til hliðar og eiga samverustundir með fullri þátttöku og innlifun. Notum orðin okkar, hlýðum á hljómfall þeirra, njótum þess hve dásamlegt og einstakt tungumál við eigum og kennum nýjum Íslendingum að tala það. Við vitum að nýir Íslendingar geta lært málið vel og má í því sambandi minna á vinkonurnar þrjár sem dúxuðu í Fjölbrautaskólanum í Ármúla í vor og fengu verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku.“
Í liðinni viku tók forseti, ásamt dr. Gunnari Þór Péturssyni, þátt í sófaspjalli um leiðtoga framtíðarinnar á Framadögum HR. Að því loknu kynntu þær Dana og Diana sig fyrir forseta. Þær þökkuðu henni fyrir að hafa gert námsárangur þeirra og Ngan að umtalsefni og sögðu stuttlega frá reynslu sinni af náminu við HR.