• Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar leikur við athöfnina á Bessastöðum. Ljósmynd: Gummi Lú.
  • Ingi Garðar Erlendsson skólahljómsveitarstjóri tekur við Íslensku menntaverðlaununum. Ljósmynd: Mummi Lú.
  • Örvar Rafn Hlíðdal íþróttakennari tekur við Íslensku menntaverðlaunum úr hendi Guðmundur Inga Kristinssonar mennta- og barnamálaráðherra og ungrar aðstoðarkonu. Ljósmynd: Mummi Lú.
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, Sigríður Valdís Snæbjörnsdóttir og Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir, stjórnendur í leikskólanum Grænuvöllum og Borgarhólsskóla á Húsavík, taka við Íslensku menntaverðlaununum úr hendi Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra. Ljósmynd: Mummi Lú.
  • Helga Kristín Kolbeins, skólastjóri Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, tekur við Íslensku menntaverðlaununum úr hendi Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, og ungrar aðstoðarkonu. Ljósmynd: Mummi Lú.
  • Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri Háaleitisskóla í Reykjanesbæ, tekur við Íslensku menntaverðlaununum úr hendi Guðfinnu S. Bjarnadóttur, formanns dómnefndar. Ljósmynd: Mummi Lú.
Fréttir | 05. nóv. 2025

Framúrskarandi skólastarf

Íslensku menntaverðlaunin 2025 voru afhent á Bessastöðum. Líkt og undanfarin ár var dagskráin tekin upp og sýnt frá henni á RÚV. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum og er öllum frjálst að tilnefna til þeirra ár hvert.

Forseti flutti ávarp í upphafi athafnarinnar og lagði þar áherslu á að menntun væri eitt mikilvægasta og vandasamasta verkefni hvers samfélags. Hún bætti síðan við: „Það leikur enginn vafi á því að við sem samfélag eigum ávallt að leita allra leiða til að styrkja og bæta menntakerfið. Það gerum við hér í dag með því að lyfta því upp sem vel er gert og beina sviðsljósinu að styrkleikum í skólastarfi. Við vonum að með því móti getum við hvatt til dáða alla þá sem vinna á þessum stóra og fjölbreytta vettvangi.“

Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar hlaut Íslensku menntaverðlaunin að þessu sinni fyrir framúrskarandi menntastarf. Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla, fékk verðlaunin fyrir framúrskarandi kennslu. Lítil skref á leið til læsis, samstarfsverkefni leikskólans Grænuvalla og Borgarhólsskóla á Húsavík um málörvun og læsi, var valið framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi framlag til iðn- eða verkmenntunar komu í hlut Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum en hann hefur markað sér sterka stöðu í kennslu málm- og vélstjórnargreina. Hvatningarverðlaun fékk starfsfólk Háaleitisskóla í Reykjanesbæ en þar hefur tekist að skapa einstaklega jákvæða skólamenningu, m.a. með því að líta á fjölmenningu sem styrk skólans.

Að Íslensku menntaverðlaununum standa, ásamt embætti forseta Íslands, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, innviðaráðuneytið, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Samtök iðnaðarins.

Nánari upplýsingar um verðlaunahafa og tilnefnd verkefni árið 2025 eru aðgengilegar á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Útsending frá athöfninni er aðgengileg á vef RÚV.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar